Skoðun

Hugmyndin um graðara Alþingi er góð

Lýður Árnason skrifar
Ólafur Hauksson átelur í nýlegri grein í Fréttablaðinu kosningaákvæðið í frumvarpi stjórnlagaráðs. Segir það gelda Alþingi og fylla það af villiköttum. Að mati greinarhöfundar mun þetta gerast þar sem ekki sé talað um stjórnmálaflokka í kosningaákvæðinu heldur samtök frambjóðenda.

Í síðari yfirreið stjórnlagaráðs í vor lá fyrir athugasemd í þessa veru og ákvað ráðið að breyta orðalaginu í samræmi við núgildandi kosningalög frá 2000 en þar segir (32. grein): Með stjórnmálasamtökum er í lögum þessum átt við samtök sem bjóða eða boðið hafa fram við alþingiskosningar. Í frumvarpinu sem birtist kjósendum í haust mun því standa stjórnmálasamtök en ekki samtök frambjóðenda. Áhyggjur Ólafs af þessu eru því ástæðulausar.

Persónukjör í frumvarpi stjórnlagaráðs segir Ólafur flókið en því má líkja við konfektkassa (framboðslista) sem þú annaðhvort velur eins og nú tíðkast allan eða tínir úr þá mola sem þér hugnast best. M.ö.o. má segja að prófkjör flokkanna færist til þín í kjörklefanum, kjósandi góður.

Ólafur telur það galla að sá frambjóðandi sem flesta krossa hlýtur, þ.e. sá konfektmoli sem flestum þykir bestur, verði að þingmanni. Þetta þótti stjórnlagaráði einmitt eftirsótt enda í samræmi við ákall þjóðfundar.

Í lok greinar sinnar geldur Ólafur varhug við hinu beina lýðræði sem frumvarp stjórnlagaráðs inniber. Sitt sýnist hverjum um ágæti þessa en afstaða stjórnlagaráðs er borðliggjandi sú að auka áhrifamátt almennings í stjórnskipuninni. Að mati ráðsins mun beint lýðræði ekki skerða störf þingsins heldur gegna hlutverki aðhalds og leiðbeiningar. Landsmenn geta svo velt fyrir sér hvort þörf sé á þessu eður ei.

Annað í frumvarpinu tiltók Ólafur sem sallafínt og læt ég þetta því nægja að sinni.


Tengdar fréttir

Hugmyndin um að gelda Alþingi er vond

Tillaga stjórnlagaráðs um fyrirkomulag Alþingiskosninga er vægast sagt vond. Reyndar sker hún sig úr, því flestallt annað í frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er sallafínt.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×