Erlent

Allsherjarþingið fordæmir stjórn Assads

Bashar Ja‘afari, sendiherra Sýrlands, hægra megin á myndinni, fylgist brúnaþungur með umræðum.
Bashar Ja‘afari, sendiherra Sýrlands, hægra megin á myndinni, fylgist brúnaþungur með umræðum. Fréttablaðið/AP
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fordæmir Sýrlandsstjórn fyrir að beita þungavopnum á almenning og skorar á öryggisráðið að grípa til aðgerða. Ísland er meðal þeirra ríkja sem stóðu að ályktuninni, sem 133 ríki samþykktu.

„Það eru engir sigurvegarar í Aleppo í dag,“ sagði Ban ki Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, þegar hann ávarpaði Allsherjarþing samtakanna í gær. „Þeir sem tapa í þessu stríði eru íbúar Sýrlands.“

Þingið samþykkti, með 133 atkvæðum gegn tólf, ályktun um ástandið í Sýrlandi þar sem Sýrlandsstjórn var fordæmd fyrir að beita þungavopnum á almenning.

Í ályktuninni segir að það séu sýrlensk stjórnvöld sem verði að „stíga fyrsta skrefið til þess að binda enda á ofbeldið“. Ísland er meðal þeirra ríkja sem standa að ályktuninni.

Allsherjarþingið hefur ekki þau völd sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur til að fylgja ályktun sinni eftir, en Rússar og Kínverjar hafa með neitunarvaldi sínu ítrekað komið í veg fyrir að öryggisráðið samþykki að beita Sýrlandsstjórn frekari þrýstingi.

Allsherjarþingið ákvað að taka ályktunina til afgreiðslu eftir að Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði af sér sem friðarfulltrúi samtakanna í Sýrlandi. Annan sagðist ekki hafa fengið þann stuðning frá Sameinuðu þjóðunum, sem þurft hefði.

Ban Ki Moon sagði í ræðu sinni í gær, að þrátt fyrir allt hefði vera friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi skipt íbúa landsins miklu máli.

„Mig hryllir við því hve miklu verra ástandið væri ef Sameinuðu þjóðirnar væru hvergi nærri,“ sagði Ban.

Harðir bardagar hafa geisað alla vikuna í Aleppo, fjölmennustu borg Sýrlands, og víðar í landinu, meðal annars í höfuðborginni Damaskus.

Tugir manna létu lífið þegar sprengjur féllu á flóttamannabúðir Palestínumanna í Damaskus. Stjórnarherinn og uppreisnarmenn áttu í hörðum átökum í næsta nágrenni Jarmúk-flóttamannabúðanna, sem eru í Tadamon-hverfi borgarinnar. Margir íbúar hverfisins höfðu leitað skjóls í búðunum og telja Palestínumenn í búðunum það vera ástæðu þess að sprengjum var varpað á þær.

Talið er að átökin í Sýrlandi hafi kostað meira en 20 þúsund manns lífið síðan þau hófust snemma á síðasta ári. Hundruð þúsunda manna hafa flúið land en tugir þúsunda eru innikróaðir vegna átakanna víðs vegar um landið og komast hvergi.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×