Skoðun

Réttindi flóttamanna

Valgerður Húnbogadóttir skrifar
Mikil umræða hefur verið um málefni flóttamanna og af þessu tilefni langar mig að fjalla um hvaða réttindi flóttamenn hafa samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland er aðili að. Ísland er aðili að alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna frá 28. Júlí 1951 sem þýðir að stjórnvöldum ber að fara eftir honum. Í fyrstu grein samningsins er hugtakið flóttamaður skilgreint sem einstaklingur sem hefur yfirgefið heimaland sitt vegna ástæðuríks ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands. Þá má ekki, samkvæmt 44. grein útlendingalaga, senda einstakling aftur til lands þar sem hann á það á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Aðildarþjóðir að alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna verða að virða samninginn. Þjóðir geta ekki, eftir eigin geðþótta eða vilja almennings, sent einstaklinga af landi brott uppfylli þeir skilyrði 1. gr. samningsins eða 33. gr. Komi flóttamenn til Íslands á ólöglegan hátt mega íslensk stjórnvöld ekki nota það gegn þeim samkvæmt 31. grein fyrrnefnds alþjóðasamnings. Það að flóttamenn komi til Íslands á ólöglegan hátt er því ekki ástæða til að neita flóttamönnum um hæli.

Flóttamenn hljóta lagalega stöðu flóttamanns í því ríki sem þeir sækja um hæli uppfylli þeir fyrrnefnd skilyrði að mati yfirvalda. Engir tveir flóttamenn eru eins og því liggur mikil vinna á bak við það að komast að niðurstöðu. Alþjóðasamtök um fólksflutninga (IOM) gaf í fyrra út skýrslu um fólksflutninga. Að því tilefni hélt IOM ráðstefnu í Brussel þar sem ritsjóri skýrslunnar, Gervais Appave, flutti erindi. Hann sagði að í heimalandi hans, Ástralíu, virtist almenningur eiga það til að rugla saman flóttamönnum, námsmönnum, innflytjendum og meira að segja túristum. Flóttamenn eru sérstakur hópur fólks sem á rétt á vernd samkvæmt alþjóðasáttmálum og landsrétti og rétturinn til að sækja um hæli telst til grundvallarmannréttinda.

Að lokum langar mig að vitna í Jane McAdam, prófessor á sviði flóttamannaréttar: Ég vildi óska þess að fólk myndi staldra við og gefa því gaum að það er eingöngu sökum heppni að þú ert fæddur hér en ekki einhvers staðar annars staðar.




Skoðun

Sjá meira


×