Lífið

Sendiherra Þýskalands orðinn „íslenskur“

Hermann Sausen, sendiherra Þýskalands á Íslandi, tók við viðurkenningarskjali frá aðstandendum sýningarinnar How to become Icelandic in 60 minutes í gær.
Hermann Sausen, sendiherra Þýskalands á Íslandi, tók við viðurkenningarskjali frá aðstandendum sýningarinnar How to become Icelandic in 60 minutes í gær.
„Við lærðum að segja Eyjafjallajökull,“ nefnir Hermann Sausen, sendiherra Þýskalands á Íslandi, sem fór nýverið á leiksýninguna How to become Icelandic in 60 minutes. Hann fékk í gær afhent viðurkenningarskjal fyrir að hafa lært fimmtán atriði sem þarf, samkvæmt sýningunni, til að kallast íslenskur.

Sýningin er gamanleikur fyrir útlendinga til að kynnast íslensku þjóðinni og sjá muninn á milli innfæddra og ferðamanna. „Staðalímyndir eru notaðar. Til dæmis var sýnt hversu ólíkt Íslendingar og Þjóðverjar vísa til vegar. Þjóðverjar gefa vegalengdir upp í hárréttum metrum á meðan Íslendingar benda bara í einhverjar áttir,“ segir Hermann og bætir við að nokkur göngulög Íslendinga hafi verið sýnd. „Við lærðum svokallaða „bóndagöngu“, það er að ganga um misháa hóla, og að arka eins og ruddi.“

Hermann fékk hugmyndina að viðurkenningarskjalinu og viðraði hana við leikara sýningarinnar Bjarna Hauk Þórsson. Hann vonar að áhorfendur fái framvegis slíkt skjal. „Ef allir ferðamenn fara á sýninguna og fá vottun gætu Íslendingar hæglega orðið 400 þúsund í sumar,“ segir Hermann sem hefur verið búsettur hérlendis síðustu tvö ár og svarar aðspurður hvort hann kalli sig Íslending: „Kannski ekki alveg en ég elska Ísland og Íslendingar gera það líka svo því get ég kallast íslenskur.“

Gamanleikurinn er sýndur í Hörpu og hefur nú þegar verið sýndur tuttugu sinnum fyrir fullu húsi.

- hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.