Lífið

Ást, hatur og náttúra í spilastokki Hugleiks

Hugleikur Dagsson hefur sent frá sér spilastokk og líkt og von er á inniheldur sá stórskemmtilegar myndir.
Hugleikur Dagsson hefur sent frá sér spilastokk og líkt og von er á inniheldur sá stórskemmtilegar myndir. fréttablaðið/stefán
Hugleikur Dagsson hefur sent frá sér spilastokk sem myndskreyttur er með verkum eftir hann. Myndirnar teiknaði hann á síðasta ári og að hans sögn koma þær flestar tilveru okkar mannanna við.

„Mér hefur alltaf þótt gaman að taka fyrir hluti sem eru innan einhverra marka, eins og dauðasyndirnar sjö eða boðorðin tíu, og langaði mikið að gera tarot-spilastokk. Ég var bara ekki nógu vel að mér í þeim spilum og ákvað í staðinn að gera minn eigin tarotstokk sem væri jafnframt hefðbundinn spilastokkur,“ útskýrir Hugleikur.

Stokkurinn inniheldur fimmtíu og tvær myndir auk jókera og segir Hugleikur myndirnar allar tengjast tilveru okkar mannanna. „Þannig teiknaði ég hatur, ást, vísindi, náttúru og gleði svo fátt eitt sé nefnt. Ég bjó líka til mitt eigið tarotkerfi þannig að fólk geti spáð fyrir sér,“ segir hann.

Spilastokkarnir verða fáanlegir í bókabúðum og minjagripaverslunum auk þess sem Hugleikur mun selja þá á ferðalagi sínu um landið, en hann var á leið austur á Seyðisfjörð ásamt tónlistarmanninum Snorra Helgasyni þegar Fréttablaðið náði af honum tali og verður á Patreksfirði í kvöld.

„Ég er á uppistands- og tónleikatúr um landið með Snorra. Ég er með uppistand á dónalegri nótunum og Snorri spilar svo hugljúfa tóna á eftir.“ sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.