Skoðun

Skóli fyrir 5 ára börn

Í leiðara Fréttablaðsins 6. júní síðastliðinn var fjallað um sveigjanleg skil milli skólastiga og því fagnað að í Flataskóla í Garðabæ yrði boðið upp á nám fyrir 5 ára börn, en tilraunin er liður í samrekstri leik- og grunnskóla. Nú er það svo að nær öll börn frá eins til tveggja ára aldri eru í leikskóla sem vinnur eftir skilgreindri námskrá.

Nokkrir einkaskólar á grunnskólastigi hafa hins vegar boðið upp á 5 ára deildir, Ísaksskóli, Hjallastefnan og Landakotsskóli, en sá sem þetta ritar stýrir þeim síðasttalda.

5 ára deildin í Landakotsskóla fer eftir sérstakri námskrá. Síðastliðinn vetur voru þar 18 börn með tvo kennara. Áhersla er lögð á móðurmál og lestur, börnin byrja að reikna og þau læra frönsku og ensku.

Árangur er marktækur. Mörg börnin verða stautfær, jafnvel læs, þau geta dregið til stafs að vori, eitt og annað geta þau reiknað og þau hafa umtalsverða færni í enskum og frönskum framburði og þau eru næm fyrir blæbrigðum hljóðanna.

Kennslan fer fram með margvíslegum aðferðum, gegnum leik, söng, með brúðum o.fl. Allt segir þetta okkur að mörg börn geta tekist á við grunnskólanám fyrr en aldur þeirra segir til um. Hið sama á við hinn endann á grunnskólanum. Margir unglingar hafa burði til að takast á við námsefni framhaldsskóla; hér eru t.d. kenndir valáfangar í stærðfræði á framhaldsskólastigi.

Sjálfsagt er að tengja þessi skólastig saman með skýrari hætti en gert hefur verið um sinn, en illu heilli var fjarnám grunnskólanema við framhaldsskóla skorið niður í kjölfar hrunsins.


Tengdar fréttir

Aukið val

Skóli og nám er vinna barna frá um það bil tveggja ára aldri og að minnsta kosti þar til skólaskyldu lýkur þegar þau eru sextán ára. Langflestir unglingar halda svo námi áfram eftir það fram um tvítugt og drjúgur hluti enn lengur í margs konar starfsnámi eða fræðum.




Skoðun

Sjá meira


×