Erlent

Komið í veg fyrir einkarétt Kína

Í Nuuk á Grænlandi
Í Nuuk á Grænlandi
Grænlenska landsstjórnin mun ásamt Evrópusambandinu, ESB, undirrita í Nuuk í dag yfirlýsingu sem á að tryggja að Kínverjar fái ekki einkarétt á sölu fjölda mikilvægra bergtegunda í landgrunni Grænlands, heldur verði þær boðnar út á frjálsum markaði.

Kínversk fyrirtæki geta tekið þátt í vinnslu svokallaðra „sjaldgæfra bergtegunda“ á Grænlandi og sölu þeirra en grænlenska landsstjórnin skuldbindur sig nú til að tryggja að viðskipti með bergtegundirnar verði frjáls, að því er segir á vef danska ríkisútvarpsins.

Gert er ráð fyrir að Grænlendingar fái 25 milljóna evra fjárhagsstuðning á komandi árum við vinnslu bergtegundanna vegna samvinnunnar við ESB.

Stjórnvöld í Danmörku reyndu fyrr á þessu ári að hafa meiri áhrif á samningana við ESB. Danska stjórnin, sem styðst við greiningu leyniþjónustu hersins, er þeirrar skoðunar að „sjaldgæfar bergtegundir“ hafi svo mikið hernaðarlegt gildi að líta verði svo á að vinnsla þeirra heyri undir utanríkis- og öryggismál sem heyri undir Danmörku.

Kína hefur nú yfirráð yfir 95 prósentum af heimsframleiðslunni úr sjaldgæfum bergtegundum sem meðal annars eru notaðar í háþróuð vopnakerfi, farsíma, vindmyllur og ýmsar hátæknivörur. Þess vegna hafa ríkisstjórnir, leyniþjónustur og iðnfyrirtæki á Vesturlöndum lengi reynt að koma í veg fyrir að Kínverjar fái einkarétt yfir bergtegundunum við Grænland sem eru þær mestu utan Kína. Kínverjar hafa áður notað yfirráð sín yfir sjaldgæfum bergtegundum til dæmis til þess að þvinga Japani til að fylgja fyrirmælum sínum. - ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×