Skoðun

Til Heiðu

Edda Jónasdóttir skrifar
Fulltrúar Besta flokksins buðu sig ekki fram til að standa vörð um persónulega hagsmuni segir þú í grein þinni „Til kjósenda" í Fréttablaðinu 17. maí. En eruð þið ekki að berjast fyrir persónulegum hagsmunum hótelbyggjanda í Kvosinni? Kjósendur hafa verið að skrifa vegna baráttunnar um að ekki rísi risahótel við Austurvöll, Ingólfstorg og Fógetagarðinn og að tónlistarsalurinn Nasa verði ekki rifinn. Engin svör hafa fengist önnur en þau að málið sé í ákveðnum farvegi. Þó hef ég heyrt haft eftir fulltrúum ykkar að húsin við Vallarstræti munu ekki halda sinni upprunalegu mynd og að þarna muni rísa hótel.

Það er ánægjulegt að loksins skulir þú, Heiða Kristín, fulltrúi Besta flokksins stinga niður penna og lýsa vilja ykkar í þessu máli. Þú svarar í grein þinni Davíð Roach Gunnarssyni sem birtist í Fréttablaðinu 16. maí að enda þótt skemmtistaðurinn Tunglið, sem áður stóð í Lækjargötunni sé horfinn, lifi tónlistin blómlegu lífi. Merkilegt! Af hverju heldur þú að svo sé?

Það er nefnilega samtakamáttur almennings sem skiptir miklu máli. Það má fullyrða að tónlistarhúsið Harpa, helsta musteri tónlistar á Íslandi í dag, eigi tilvist sína að þakka baráttu áhugamanna um tónlist. Sú barátta stóð í áratugi. Ekki tókst áhugafólki um verndun menningarverðmæta í miðborginni að bjarga Fjalakettinum á sínum tíma. Vonandi tekst nú að bjarga NASA.

Við erum stolt af elsta húsi Reykjavíkur, Aðalstræti 10, byggt 1762. Sama má segja um Bernhöftstorfuna sem til stóð að rífa. Borgir í nágrannalöndum okkar leggja sig fram við að hlúa að miðbæjarkjarna m.a. með viðhaldi og verndun gamalla bygginga. Ferðamenn jafnt sem Íslendingar sækja miðbæinn til að njóta þess sem hann hefur upp á að bjóða og efast ég um að byggingar eins og Miðbæjarmarkaðurinn, TM-húsið og MBL-húsið gamla, sem öll standa við Aðalstræti, sé það sem fólk sækir í. Þarf virkilega að koma enn ein stórbyggingin í viðbót á umrætt svæði? Það ætti frekar að vera baráttumál ykkar að rífa stóru steinbyggingarnar við Aðalstræti sem ég taldi upp, frekar en að bæta þeim við það sem fyrir er.

Mjög margir erlendir gestir sem koma hingað, dvelja eingöngu í Reykjavík og hvað gera þeir í heimsókn sinni? Þeir ganga mikið um í miðbæ Reykjavíkur til að heimsækja söfnin, veitingastaði, hafnarsvæðið og skoða byggingar eins og Dómkirkjuna, Alþingishúsið, Aðalstræti 10, Stjórnarráðið, Þjóðmenningarhúsið, Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, Hallgrímskirkju og Menntaskólann í Reykjavík. Þetta eru hús sem hafa sögulegt gildi sem ég legg áherslu á að sýna gestum mínum.

Það er einkenni mjög margra borga í nágrannalöndum að þar er gamall miðbæjarkjarni og falleg torg, ekki eru stórar steinbyggingar í Gamla Stan í Stokkhólmi eða á Grábræðratorgi í Kaupmannahöfn.

Aðalmálið er að fegra Ingólfstorg og með því gerum við borgina þannig að hún hafi aðlaðandi miðbæjarkjarna sem allir Íslendingar geta notið og ég get verið stolt af þegar ég kynni hana fyrir erlendum gestum okkar.

Það er rétt sem þú segir að hér er um einkalóðir að ræða og allir átta sig á því. En lóðirnar eru ekki við Suðurlandsbraut eða í Þverholti, heldur í hjarta borgarinnar, við þrjú almenningstorg og því hlýtur almenningur að koma að þessu máli og að geta óskað eftir því að borgarfulltrúar verji hagsmuni okkar borgarbúa. Hér er verið að breyta umhverfi í dýrmætu almenningsrými og menningarleg verðmæti eru í húfi. Það stendur m.ö.o. til að breyta lífsgæðum borgarbúa og annarra Íslendinga. Við viljum ekki fleiri slys í skipulagsmálum.

Hvers vegna þarf svona mörg hótel á svæði sem afmarkast af Aðalstræti, Austurstræti, Hafnarstræti, Bankastræti og neðri hluta Laugavegar? Ég get ekki betur séð en að Hótel eins og Grand Hótel, Hótel Natura/Icelandair, Cabin hótel, Hótel Nordica, Radisson Saga, Hótel Reykjavík, Foss hótel Barón og Hótel Park-inn lifi góðu lífi þrátt fyrir staðsetninguna.

Það eru aðrar lausnir í þessu máli og hér er mín lausn. Best væri að Besti flokkurinn beitti sér fyrir því að eigandi þessara lóða fengi annan stað til að byggja hótelið sitt á, það færu fram svokölluð „makaskipti". Hann fengi lóð þar sem aðkoma bíla væri þægilegri því Besti flokkurinn hefur lagt til að draga skuli úr umferð bíla í miðborginni. Það væri einnig frábært ef Besti flokkurinn beitti sér fyrir því að varðveita menningarverðmæti á umræddum lóðum. Það væri frábært ef Besti flokkurinn beitti sér fyrir því að skuggavarp verði ekki meira (helst minna) á almenningssvæðum sem þessum. Svo væri það best af öllu ef Besti flokkurinn beitti sér fyrir hagsmunum almennings umfram einkaaðila.

Borgarfulltrúar Besta flokksins ættu að gera sér grein fyrir því að þeir eru ekki afgreiðslustofnun fyrir verktaka eða peningagræðgi lóðareiganda heldur voruð þið kosin vegna þreytu almennings á ruglinu í borginni, þ.m.t. byggingarrugli. Hverra hagsmuna er verið að gæta ef Besti flokkurinn stuðlar að hótelbyggingu á torginu?


Tengdar fréttir

Til borgarfulltrúa Besta flokksins

Kæru borgarfulltrúar Besta flokksins. Þið buðuð ykkur fram undir því yfirskyni að gera Reykjavík að skemmtilegri borg. Í byrjun þessa árs kom fram að til stæði að rífa skemmtistaðinn Nasa og byggja enn eitt risahótelið við einn ástsælasta samkomustað Reykvíkinga, Austurvöll. Þessi áætlun kom fyrst fram fyrir þremur árum síðan en komið var í veg fyrir það þá vegna mikilla mótmæla, m.a. frá tónlistarmönnum. Þegar þessi áætlun var sett fram aftur í byrjun árs vakti það hjá mér ugg í brjósti, en síðan róaðist ég aðeins þegar ég mundi hverjir sætu í borgarstjórn.

Til kjósenda

Fulltrúar Besta flokksins buðu sig ekki fram til borgarstjórnar til þess að standa vörð um persónulega hagsmuni sína eða félaga sinna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×