Lífið

Jóhann er fastur í að syngja hlutverk illmenna og feðra

Jóhann Axel Schram Reed er í hópi þrjátíu óperusöngvara sem fengu inngöngu á virt óperunámskeið í Los Angeles.
Jóhann Axel Schram Reed er í hópi þrjátíu óperusöngvara sem fengu inngöngu á virt óperunámskeið í Los Angeles.
Jóhann Axel Schram Reed, óperusöngvari, komst nýverið inn í óperunámskeið í Los Angeles sem ætlað er ungum óperusöngvurum sem eru að stíga sín fyrstu skref sem atvinnufólk í óperuheiminum. Um þrjú hundruð manns sækja um námskeiðið ár hvert, en aðeins þrjátíu komast inn.

Jóhann Axel hefur verið búsettur í Norður-Kaliforníu síðastliðin tvö ár þar sem hann stundar BM-nám í óperusöng í óperudeild University of the Pacific.

?Ég ólst upp í þessum heimi. Pabbi minn, Keith Reed, er óperusöngvari og söng meðal annars mikið í Þýskalandi og nærliggjandi löndum. Hann stofnaði einnig Óperustúdíó Austurlands á Egilsstöðum og ég tók stundum þátt í uppfærslum þar. Þannig það lá beinast við að ég færi og lærði söng því þetta var það sem ég þekkti og elskaði,? segir Jóhann Axel sem byrjaði á námskeiðinu í gær.

Námskeiðið er í raun vinnubúðir fyrir upprennandi söngvara þar sem þeir læra ýmislegt sem gæti nýst þeim við atvinnuleit. ?Við förum í leiklistartíma, leikfimi og dans og lærum svo um fjárhagslegu hliðina. Óperusöngvarar eru oft í sjálfstæðum rekstri og þurfa því að koma sér sjálfir á framfæri og verða sér úti um vinnu.?

Jóhann segir mikla samkeppni ríkja milli söngvara og að erfitt geti verið að komast að hjá óperuhúsum. Hann hyggur á áframhaldandi mastersnám í söng í framtíðinni og segir líklegt að hann muni ferðast um heiminn í leit að vinnu að því loknu.

Þegar hann er að lokum inntur eftir því hvort hann eigi sér draumahlutverk er hann fljótur til svars. ?Það væri líklega Barón Scarpia í Tosca. Ég er bassabarítón og er því fastur í því að syngja hlutverk feðra og illmenna og Scarpia er eitt versta illmenni sem til er í óperusögunni. Auk þess er hlutverkið krefjandi og tónlistin ómótstæðileg.?-sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.