Lífið

Fjölmargir hafa fataskipti á netinu

Myriam Marti
Myriam Marti Mynd/Vilhelm
„Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og farið fram úr mínum björtustu vonum," segir Myriam Marti sem stendur að vefsíðunni Fataskipti.is.

Rúmur mánuður er síðan Myriam stofnaði síðuna sem nú þegar telur um 500 notendur. Á síðunni koma saman seljendur, kaupendur og svo þeir sem vilja hafa fataskipti. Myriam fékk hugmyndina að síðunni þegar hún var stödd í fataleiðangri.

„Það er nú engin tímamótasaga á bak við þessa hugmynd en mig langaði svo að skipta peysu sem ég átti í aðra flík en gat það ekki því ég var búin að nota hana. Þess vegna datt mér í hug að stofna svona síðu, sem er eins konar flóamarkaður á netinu," segir Myriam en fjölmargir landsmenn keppast við að tæma fataskápa um helgar og selja í Kolaportinu eða á flóamörkuðum.

„Þetta er í raun það sama nema án alls þess sem fylgir því að halda flóamarkað og fara í Kolaportið. Fólk getur sett bara eina flík á síðuna eða tuttugu. Svo ef það sér eitthvað sem því líkar til sölu á síðunni er hægt að bjóða viðkomandi að skipta eða kaupa. Það eru allir með eitthvað ónotað í fataskápnum sem þeir vilja losna við."

Það er ókeypis að skrá sig á síðuna sem er aðgengileg og einföld í notkun. „Notendur hafa verið duglegir að hafa samband og benda á það sem betur má fara svo síðan er í stöðugri þróun sem er skemmtilegt," segir Myriam sem sjálf hefur gert þó nokkur góð kaup á síðunni.

„Ég er þessa stundina að bíða spennt eftir svari hvort ég geti gert fataskipti við einn notandann." -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.