Lífið

Kominn með erlenda umboðsmenn

Leikstjórinn Reynir Lyngdal er kominn með umboðsmenn hjá William Morris Endeavor og United Agents.
Leikstjórinn Reynir Lyngdal er kominn með umboðsmenn hjá William Morris Endeavor og United Agents. fréttablaðið/vilhelm
„Maður er kominn einu skrefi lengra og hefur aðgang að aðeins stærri heimi,“ segir leikstjórinn Reynir Lyngdal. Hann er kominn með umboðsmenn hjá bandarísku umboðsskrifstofunni William Morris Endeavor, sem er sú stærsta í heimi, og bresku skrifstofunni United Agents. „Ég hitti þetta fólk í Cannes en var búinn að vera í samskiptum við það síðan í febrúar. Þetta er tilkomið mikið til út af Frosti. Það var mikill hiti og spenna fyrir henni í Cannes,“ segir Reynir en sýnishorn úr spennumynd hans vakti mikla athygli á kvikmyndahátíðinni í síðasta mánuði.

Reynir er ekki búinn að skrifa undir samning við umboðsskrifstofurnar tvær. Umboðsmennirnir eru samt þegar farnir að starfa fyrir hann því þeir hafa sent honum alls konar handrit, meðal annars að hryllingsmynd og sjónvarpsþáttaröð. „Þetta er allt voða flott og fínt en þetta er bara hjóm þangað til maður ýtir á eftir hlutunum sjálfur. Fókusinn hjá mér núna er að klára Frost vel og það er mjög spennandi verkefni,“ segir Reynir, sem er með báða fætur á jörðinni.

Frost er í eftirvinnslu um þessar mundir og er stefnt á frumsýningu í haust. Tveir aðrir íslenskir leikstjórar eru á mála hjá William Morris Endeavor, eða Óskar Þór Axelsson sem leikstýrði Svartur á leik og Baltasar Kormákur. Meðal annarra leikstjóra hjá fyrirtækinu eru stórlaxar á borð við Michael Bay, Tim Burton og Quentin Tarantino. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.