Lífið

Átta ára í myndatöku fyrir Marie Claire

Sigurður og Sölvi stilla sér upp fyrir tökuliðið sem kom frá Búlgaríu, Ítalíu og Frakklandi.
Sigurður og Sölvi stilla sér upp fyrir tökuliðið sem kom frá Búlgaríu, Ítalíu og Frakklandi. MYND/HAUKUR SNORRASON
„Þeir hafa verið að spá hvort þeir verði frægir eða fái eitthvað borgað,“ segir Hadda Björk Gísladóttir, móðir átta ára drengs sem fékk ásamt vini sínum að prófa fyrirsætuhlutverkið um hvítasunnuhelgina.

Fyrirsæturnar ungu eru vinirnir Sigurður Snorri Hauksson og Sölvi Þorkelsson og var myndatakan fyrir 25 ára afmælisrit hins ítalska Marie Claire sem kemur út í október.

Hadda og eiginmaður hennar Haukur Snorrason reka ferðaskrifstofuna Iceland Photo Tours og sérhæfa sig í ljósmyndaferðum fyrir erlenda ljósmyndara. Í lok maí tóku þau á móti níu manna tökuliði frá Marie Claire og fór myndatakan að hluta til fram í gistihúsi þeirra hjóna, Hrifunes Guesthouse.

„Strákarnir höfðu verið að renna sér á rassinum niður moldarbarð og voru sem nýdregnir upp úr fjóshaug þegar ljósmyndararnir stungu upp á því að fá þá lánaða á nokkrar myndir. Ég ætlaði að setja þá í hrein föt en þeir neituðu og sögðu þá fullkomna.“

Höddu þótti undarlegt að ljósmyndararnir völdu að hafa strákana grútskítuga sem og að velja sér tökustað í hálfgerðum ruslahaugi.

„Við vorum að steypa skemmugólfið hjá okkur og allt draslið var út á hlaði. Þetta fannst tökuliðinu hentugur bakgrunnur en hann var alveg andstæða við fyrirsætuna sem tiplaði um í bleiku blúndupilsi og kápu.“

Drengirnir tóku þátt í tveimur myndatökum en ekki er vitað fyrir víst hvort þeir birtist á síðum ítalska Marie Claire. „Tökuliðið var allavega yfir sig hrifið af þeim og þeir stóðu sig mjög vel,“ segir Hadda.

- hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.