Lífið

Loftskeytamenn í gamla tímanum

Fyrsta lag Loftskeytamanna, Gott að búa á Íslandi, er komið út. Það er titillag heimildarþátta um íslenska lífeyrissjóðakerfið.

Hljómsveitin Loftskeytamenn hefur sent frá sér sitt fyrsta lag, Gott að búa á Íslandi. Það er titillag nýrra heimildarþátta Gunnars Sigurðssonar og félaga um lífeyrissjóðakerfið á Íslandi sem verða líklega sýndir í Sjónvarpinu á þessu ári.

„Ég gerði hljóðheiminn og tónlistina við þessa nýju þætti. Þegar ég var að byrja að vinna tónlistina kom þetta lag upp í hausinn á mér og þessi texti," segir Guðmundur Ingi Þorvaldsson Loftskeytamaður. „Við erum öðrum þræði í þessum heimildarmyndum að kanna þessa mýtu, „Er allt best í heimi á Íslandi?". Maður heyrir svo oft þennan söng um að við séum með besta lífeyrissjóðakerfið, besta heilbrigðiskerfið, besta vatnið og fallegasta kvenfólkið. Svo heyrir maður hinum þræði að hér sé allt í rúst, en við viljum ekki heyra það."

Tónlist Loftskeytamanna er í gamla stílnum og ef hún er eftir aðra þurfa að hafa liðið fimmtíu ár frá útkomu hennar. „Ég er alinn upp við að spila með pabba mínum og afa mínum og alinn upp í mikilli virðingu við þessa tónlist og íslenska tónlistarsögu," segir Guðmundur Ingi. „Mér finnst þetta svo spennandi tími, þegar íslenska þjóðin er að verða fullþroska."

Nýja lagið var tekið upp á einn hljóðnema eins og gert var fyrir fimmtíu árum og í myndbandi við lagið var þess gætt að sá andi svífi yfir vötnum. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.