Skoðun

Gjá milli þjóðar og útvegsmanna

Gunnar Skúli Ármannsson og Helga Þórðardóttir skrifar
Útvegsmenn, landssamband þeirra og viðhengi hafa stundað grímulausan áróður gegn veiðileyfagjaldinu með öllum tiltækum ráðum. Það auglýsingaflóð hefur sjálfsagt kostað skildinginn. Núna ætla þeir að binda flotann við bryggju. Hvað gera þeir næst?

Venjulega þegar gjá myndast milli þings og þjóðar safnar þjóðin nöfnum á undirskriftarlista og fer með hann til forsetans. Síðan er málið eftir atvikum afgreitt í þjóðaratkvæðagreiðslu með lýðræðislegum hætti. Útvegsmenn gera ekkert slíkt. Þeir vita sem er að stór meirihluti þjóðarinnar er ósammála þeim. Þeir hafa kosið leið valdbeitingar í skjóli fjármagns.

Þess vegna er gjá milli þjóðar og útvegsmanna. Hópar sem vilja að þjóðarviljinn komi skýrt fram hafa að undanförnu safnað undirskriftum á netinu til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipulag við stjórn fiskveiða á http://thjodareign.is/.

Samfara þjóðaratkvæðagreiðslu verður mikil umræða sem yrði mjög upplýsandi. Það liggur nefnilega fiskur undir steini. Það eru tvö frumvörp sem liggja fyrir Alþingi. Frumvarpið um veiðileyfagjaldið sem mest er rifist um en skugga þess leggur yfir annað frumvarp, frumvarpið um stjórn fiskveiða. Það snýr að stjórn fiskveiða og er mun mikilvægara því þar geta handhafar kvótans haldið kvótanum í 20 ár og jafnvel lengur. Í dag fá útgerðarmenn kvótann til eins árs í senn. Afleiðingin er að kvótinn mun færast mun nær því að verða eign útvegsmanna, sem er þeim ekki á móti skapi en í hrópandi andstöðu við vilja þjóðarinnar. Þess vegna verður að stöðva frumvarpið um stjórn fiskveiða, þess vegna verðum við að skrifa okkur á http://thjodareign.is/ og kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu um sjávarauðlindina okkar.




Skoðun

Sjá meira


×