Lífið

Þýska landsliðstreyjan vinsæl

Þýska landsliðstreyjan hefur verið vinsæl, að sögn Sigurðar Garðarssonar hjá Jóa útherja.
Þýska landsliðstreyjan hefur verið vinsæl, að sögn Sigurðar Garðarssonar hjá Jóa útherja. fréttablaðið/stefán
„Þetta er að aukast. Það er kominn fiðringur í menn fyrir helgina,“ segir Sigurður Garðarsson hjá Jóa útherja.

Sala á landsliðstreyjum hefur verið að aukast að undanförnu í tengslum við EM í fótbolta sem hefst í Póllandi og Úkraínu á föstudaginn. Aðspurður segir Sigurður að alls konar búningar hafi verið að seljast í versluninni. „Þýski er alltaf vinsæll og svo eru flottir búningar eins og Holland og Frakkland. Sumir kaupa útlitið en aðrir kaupa liðið sitt.“ Hann býst einnig við því að spænska treyjan eigi eftir að taka kipp, þó svo að sú þýska hafi enn yfirhöndina.

Þeir hörðustu láta merkja treyjuna sína og að sögn Sigurðar hefur Þjóðverjinn Mesut Özil sem leikur með Real Madrid verið hvað heitastur. Margir hafa einnig smellt Ronaldo á portúgölsku treyjuna sína.

Íslenska landsliðið tekur ekki þátt í EM frekar en fyrri daginn en íslensku landsliðstreyjurnar seljast samt reglulega. „Hún er keypt bæði af Íslendingum og erlendum ferðamönnum. Það er skemmtilegt að eiga svona þekkta knattspyrnumenn eins og Kolbein Sigþórsson og Gylfa Sigurðsson. Þeir eru að virka vel.“ -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.