Lífið

Hressir hæfileikamenn

EDINBURGH, UNITED KINGDOM - OCTOBER 27: Yann Tiersen performs on stage at The Picture House on October 27, 2010 in Edinburgh, Scotland. (Photo by Marc Marnie/Redferns) Yann Tiersen tónlistarmaður
EDINBURGH, UNITED KINGDOM - OCTOBER 27: Yann Tiersen performs on stage at The Picture House on October 27, 2010 in Edinburgh, Scotland. (Photo by Marc Marnie/Redferns) Yann Tiersen tónlistarmaður
Yann Tiersen

Listahátíð - Harpa Norðurljós, 31. maí

Það er greinilegt að Frakkinn Yann Tiersen á sér nokkuð marga aðdáendur á Íslandi. Það var löngu uppselt á tónleikana hans í Norðurljósasal Hörpu á fimmtudagskvöldið og hann fékk mjög góðar viðtökur í stöppuðum salnum.

Tiersen er þekktastur fyrir tónlistina í kvikmyndinni Amélie, en í henni eru píanóið og harmonikkan mest áberandi. Á tónleikunum í Hörpu flutti Tiersen aðallega lög af tveimur síðustu plötunum sínum, Dust Lane frá 2010 og Skyline sem kom út í fyrra. Tónlistin á þeim er meira í indípoppgeiranum. Hún einkennist meðal annars af spilagleði, flæðandi píanóleik og stigmögnun. Sum laganna sveiflast á milli kraftmikilla og lágstemmdari kafla.

Með Tiersen kom fimm manna hljómsveit. Þeir félagar eru nýkomnir úr tónleikaferð um Bandaríkin og Kanada og höfðu greinilega spilað sig vel saman. Þetta eru allt fínir hljóðfæraleikarar, en Tiersen sjálfur, sem spilar á fjölmörg hljóðfæri, stal senunni algerlega um miðbik tónleikanna þegar hann tók einleik á fiðluna sína við gríðarleg fagnaðarlæti. Fiðlan var líka áberandi í öflugasta laginu af Skyline, The Gutter. Undir lok tónleikanna komu strengjastelpurnar úr Amiinu og spiluðu með í nokkrum lögum.

Það var mjög góð stemning á þessum tónleikum. Tiersen og félagar voru léttir í lund og gleðin smitaði salinn. Þegar þeir yfirgáfu sviðið eftir tæplega einn og hálfan tíma, brutust út mikil fagnaðarlæti og þeir tóku nokkur lög til viðbótar. Á heildina litið voru þetta ágætir tónleikar með fjölhæfum tónlistarmanni.Trausti Júlíusson

Niðurstaða: Yann Tiersen og félagar náðu upp mikilli stemningu í Norðurljósasalnum á fimmtudagskvöldið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.