Erlent

Andrómeda nálgast Vetrarbrautina

Árekstur í uppsiglingu Svona telja vísindamennirnir að stjörnuhiminn jarðarbúa muni líta út eftir 3,75 milljarða ára.
fréttablaðið/AP
Árekstur í uppsiglingu Svona telja vísindamennirnir að stjörnuhiminn jarðarbúa muni líta út eftir 3,75 milljarða ára. fréttablaðið/AP
Eftir fjóra milljarða ára verða stórtíðindi í himingeimnum þegar stjörnuþokan Andrómeda rekst á Vetrarbrautina okkar. Tveimur milljörðum ára síðar hafa þessar tvær stjörnuþokur sameinast.

Þetta fullyrða vísindamenn, sem byggja niðurstöður sínar á myndum frá Hubble-sjónaukanum, einum stærsta stjörnusjónauka heims. Sjónaukinn hefur verið á braut umhverfis jörðu í rúma tvo áratugi og dælir stanslaust myndum til jarðar.

Áður töldu menn líklegt að stjörnuþokurnar tvær færust á mis, en nýju útreikningarnir eru sagðir sýna með nokkuð ótvíræðum hætti að þær muni rekast á.

„Þetta verður býsna ofsafengið miðað við gang mála í himingeimnum," segir Roland van der Marel, vísindamaður við Hubble-rannsóknarstofuna í Baltimore í Bandaríkjunum.

Engu að síður er ekki talin mikil hætta á því að sólkerfi okkar og jörðin verði fyrir hnjaski, því auða svæðið á milli stjarna i stjörnuþokunum er svo stórt.

Útsýnið til himins verður hins vegar harla frábrugðið því sem nú er og jarðarbúar, verði þeir einhverjir, munu geta fylgst með ansi mögnuðu sjónarspili.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×