Skoðun

Verður fiskur veiddur áfram?

Kvótakerfið sætir endurskoðun og deilt er um hvernig beri að skipta almannagæðum þjóðarinnar svo sanngjarnt sé. Nú ætti að gilda sú regla að menn fái það sem mönnum ber, hvorki meira né minna. Afrakstur mannsins er jú hans einkaeign og honum ætti að vera heimilt að taka til sín það sem hann þarfnast. Þegar gæði og verðmæti eru til staðar kemur alltaf upp sú staða hverjir eigi réttmætt tilkall til þeirra og hvernig við hámörkum þau takmörkuðu gæði sem bjóðast svo allir njóti góðs af.

Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var sett fram af þáverandi valdhöfum svo hámarka mætti nýtingu þessara gæða svo úr yrðu sem mest verðmæti. Núverandi valdhöfum hugnast hins vegar ekki sú aðferðarfræði og telja að slík gæði beri að skammta jafnt. Hvað rétt er í þeim efnum skal ég ekki segja, en í allri þessari umræðu virðast þau sjónarmið koma fram í umræðunni að sjómenn og þeir sem þjónusta sjávarútveginn telja gríðarlegt óvissuástand vera uppi um framtíð þeirra þar sem líklegt þykir að sumir atvinnurekendur sem fjárfest hafa í veiðiheimildum séu líklegir til að þola ekki fyrirhugaðar breytingar. Þessar raddir eiga allar það sameiginlegt að það eru vinnuveitendur þeirra sem munu bera skerðingarnar og ljóst er að framtíðaráform þeirra eru óljós.

Eitt skulum við þó hafa á hreinu. Á Íslandsmiðum verða stundaðar fiskveiðar áfram um ókomna tíð. Ef við umgöngumst þessa sameiginlegu auðlind okkar af ábyrgð verða alltaf til störf fyrir sjómenn og þá sem hafa atvinnu af því að þjónusta sjávarútvegsfyrirtæki. Óvissan sem blasir við vinnuveitendunum er því í raun ekki þeirra sem starfa í þeirra þágu, heldur þeirra sem sitja í húsbóndastólnum. Sú skyldurækni sem margir sýna núverandi húsbændum er merki um að vissara sé að sýna þeim sem situr í stólnum tilhlýðilegan stuðning á meðan óvissan ríkir, því ef hann situr áfram er gott að hafa hann á sínu bandi.

Þær áhyggjur sem margir stuðningsmenn virðast hafa í fjölmiðlum, sem hafa í raun engra raunverulegra hagsmuna að gæta, nema að tryggja starfsöryggi sitt ef húsbóndinn heldur velli eru til marks um óttastjórnun þeirra sem vissulega hafa tekið þátt í að hámarka gæðin og myndað verðmætin sem þeir sitja nú um og vilja njóta afraksturs erfiðisins. Hér nota menn rök Pascals um að vissara sé að hugnast æðri völdum ef þau eru raunverulega til. Höfum það hugfast að sama hver niðurstaðan verður um hvernig fiskveiðistjórnunarkerfi framtíðarinnar verður þá ættu þeir sem í raun hafa engra raunverulegra hagsmuna að gæta, ekki að þurfa búa við slíkan ótta. Umræðan sem virðist snúast um að atvinnuleysi blasi við sjómönnum og þeim sem þjónusta sjávarútveginn er að mínu mati úr lausu lofti gripin. Réttast væri að þeir sem eiga þennan slag, taki hann sjálfir og neyði ekki undirmenn sína á sitt band. Fiskurinn fer ekki neitt.




Skoðun

Sjá meira


×