Skoðun

Sátt í Aserbaídsjan

Zakir Jón Gasanov skrifar
Borgin Shusha tilheyrði Aserbaídsjan fram til 8. maí 1992, þegar hún var hernumin af Armenum og hefur hún tilheyrt Armenum síðan. Borgin var hjarta Aserbaídsjan. Með ríka tónlistarhefð. Falleg borg sem mikil eftirsjá er í.

Þótt búið sé að semja um frið milli þjóðanna, þá eru enn átök á milli þeirra á landamærunum. Skotum er oft hleypt af í þessum átökum og stundum deyja menn í þeim. Slíkur er núningurinn á milli þeirra. Obama, forseti Bandaríkjanna, og Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands, hafa átt nokkra fundi með forsetum Aserbaídsjan og Armeníu til að ná fram friði, en án árangurs. Vonir standa til að Pútín geti lagt sitt á vogarskálarnar og hjálpað til svo þjóðirnar tvær geti náð sáttum.

Þetta er saga lands míns. Aserbaídsjan er eitt af lýðveldum gömlu Sovétríkjanna, á Kákasusskaganum, við Kaspíahaf. Níu milljónir búa í landinu í dag, þar af eru 1,5 milljón íbúanna, samkvæmt skilgreiningu Sameinuðu Þjóðanna, flóttamenn. Innlendir flóttamenn sem flúið hafa m.a. þessi átök. Aserbaídsjan missti um 20% af sínu landssvæði til nágrannalanda sinna í þessum stríðsátökum. Nagorno-Karabakh, Armenía og önnur nágrannaríki hafa lagt undir sig mikið landsvæði sem tilheyrði áður gamla Aserbaídsjan.

Allt hefur þetta verið að gerast undanfarin 20 ár. En í þessari viku fer Eurovision-keppnin fram í Bakú. Keppni sem setur Aserbaídsjan í sviðsljós heimsins. Í það minnsta Evrópu. Að sjálfsögðu mun þjóðin fylkja sér um þennan atburð og kynna sig sem best. En það er ekki allt sem sýnist. Armenar munu t.d. ekki taka þátt í keppninni í ár af augljósri ástæðu.

Ég og konan mín skilgreinum okkur bæði sem Íslendinga og Asera, erum bæði fædd og uppalin í Bakú. Hjarta okkar slær í þessum tveimur löndum. Börn okkar eru fædd á Íslandi og tala bæði íslensku og asersku á heimilinu. Frábærir krakkar sem við viljum gera allt fyrir. En að sjálfsögðu vil ég mínu gamla landi allt hið besta og mun ég tala máli þess eins og hægt er.

Ég vil vekja athygli Alþingis Íslendinga á að mitt gamla land, Aserbaídsjan, á í þessum erjum við sína nágranna, Armena. Alþingi Íslendinga getur hjálpað til og beitt sér svo friður geti komist á í þessum heimshluta, með því að sýna frumkvæði og styrk sinn, eins og það gerði í málefnum Eystrasaltsríkjanna Lettlands, Eistlands og Litháen á sínum tíma. Og nú nýlega hefur Ísland beitt sér í málefnum Palestínu með því að viðurkenna tilvist ríkisins, fyrst allra ríkja í heiminum. Það er borin virðing fyrir Íslendingum á alþjóðavettvangi fyrir að sýna djörfung og dug í svona málum.




Skoðun

Sjá meira


×