Lífið

Eftirspurnin eykst á degi hverjum

Bernard La Borie er einn af eigendum Einstakrar ölgerðar. Bjórinn fæst nú í þremur löndum og eykst eftirspurnin á degi hverjum.
fréttablaðið/valli
Bernard La Borie er einn af eigendum Einstakrar ölgerðar. Bjórinn fæst nú í þremur löndum og eykst eftirspurnin á degi hverjum. fréttablaðið/valli
„Þetta er gott starf og það er sérstaklega gaman að fá tækifæri til að þróa eitthvað nýtt. Það verður einhæft að gera alltaf það sama og því er nauðsynlegt að halda sér í æfingu,“ segir Baldur Kárason, bruggmeistari hjá Einstakri ölgerð, sem er sérbruggaður bjór hjá Vífilfelli á Akureyri. Bjórinn frá ölgerðinni hefur slegið í gegn og sala hans aukist hratt.

Vörumerkið Einstök ölgerð er í eigu Bernard La Borie sem kom hingað til lands í þeim erindagjörðum að finna heimsins besta vatn til útflutnings. Ekkert varð úr þeim áformum en þess í stað ákvað hann að beina kröftunum í þróun og framleiðslu á sérbrugguðum bjór úr íslensku vatni.

„Ég hafði lengi unnið í víniðnaðinum og þekkti bransann því vel. Ég tók eftir því að aukning hafði orðið í framleiðslu og sölu á sérbrugguðum bjór, svokölluðum „craft beer“, og að það væri kjörin aðstaða fyrir slíka framleiðslu hér á Íslandi vegna vatnsins ykkar,“ útskýrir La Borie. Eftir nokkra þróunarvinnu hófst sala á afurðum Einstöku ölgerðarinnar síðasta haust og fást þær nú í Bretlandi, Írlandi, Kaliforníu og bráðlega einnig í Rússlandi og eykst eftirspurnin dag frá degi. La Borie segir velgengnina ekki koma sér á óvart, enda hafi hann fulla trú á vörunni, en að hann hafi ekki búist við slíkum uppgangi á svo skömmum tíma.

Bruggmeistarinn Baldur tekur í sama streng og segir ánægjulegt hversu góðar viðtökurnar hafa verið. Þegar hann er inntur eftir því hvort búast megi við fleiri bjórtegundum frá Einstöku ölgerðinni vill hann þó segja sem minnst. „Ætli maður geti ekki sagt að það sé ýmislegt í gerinu hjá okkur.“

-sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.