Skoðun

Týndur á Paddington

Róbert Marshall skrifar
Á fyrsta áratug ævi minnar hvarf pabbi hægt og örugglega inn í myrkur sjúkdóms sem tætti hann í sig þar til ekkert var eftir. Alkóhólisminn át í sig kímnigáfuna, stríðnisblikið í auganu, góðsemdina og hlýjuna sem stafaði af þessum ljúfa manni sem las fyrir mig söguna um bangsann sem týndist á Paddington-lestarstöðinni. Ég man hvernig var að hvíla höfuðið á brjósti hans sem reis og hneig og finna hrjúfa skeggbroddana strjúkast við ennið. Svo man ég skrímslið sem birtist þegar hann drakk; samanherpta reiðiröddina, krepptan hnefa og ótta í lofti. Það er furðulegt hverju börn geta vanist. Sjö ára sagði ég mömmu að ég vonaði að pabbi yrði ekki fullur um jólin.

Þegar ég ákvað sjálfur að hætta að drekka áfengi fyrir nokkrum árum var það að stærstum hluta vegna þess að ég hafði séð og upplifað hversu stjórnlaus drykkjusjúklingur er yfir eigin lífi. Þó það hafi komið flestum á óvart í kringum mig þá fann ég fyrir föðurarfinum. Eftir nokkurra mánaða edrúmennsku og ráðgjöf hjá SÁÁ skráði ég mig í göngudeildarmeðferð hjá samtökunum og lærði upp á nýtt að lifa án áfengis. Mín stóra eftirsjá er að hafa ekki gert það fyrr. Það átti aldrei við mig að drekka. Ég gerði það vegna þess að samfélag okkar gerir ráð fyrir því. Það er ógæfa okkar Íslendinga. En það er líka ótrúleg gæfa að eiga svo öflugan bakhjarl í okkar samfélagi sem SÁÁ er. Lífsgæði mín og þúsunda annarra hafa stóraukist fyrir tilverknað þeirra.

Því miður var SÁÁ á frumstigi þegar faðir minn flosnaði upp úr lífinu og hvarf út í buskann með flöskuna sem ferðafélaga. Við heyrðumst stopult í gegnum árin og svo sjaldnar og sjaldnar. Síðasta bréfið kom frá Blackpool eftir 16 ára fjarvist. Þegar ég og bróðir minn fórum út og hittum hann þekkti hann okkur ekki í sundur. Hvernig ætti það að vera? Þau voru fjögurra, sjö og tíu ára börnin sem Bakkus tók af honum. Ég þekkti ekki þennan mann heldur. Það sem eftir stóð var brotin skel og ráðvillt sál; skurnin af manninum sem hann var. Við fylgdum honum til London og kvöddumst á Paddington-lestarstöðinni á dapurlegasta degi lífs míns fyrir 11 árum. Til hans hefur hvorki heyrst né sést síðan. Hann týndist á Paddington.

Alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur. Hann leggur líf fólks í rúst og skeytir hvorki um stétt né stöðu. Það er skuggi yfir lífi barna sem alast upp við þær aðstæður sem hann skapar. En það er sem betur fer til lausn og hún getur verið ótrúlega einföld ef gripið er inn í framþróun sjúkdómsins snemma. Þegar álfasalan hjá SÁÁ hefst þá kaupi ég alltaf tvo álfa. Einn fyrir mig og annan fyrir pabba. Þekkir þú ekki einhvern sem þarf að læra á lífið aftur? Þú getur hjálpað með því að styrkja SÁÁ og álfasöluna. Einn álf fyrir þig og annan fyrir þann sem þú veist að þarf á því að halda. Þannig treystir þú sameiginlega velferð okkar allra.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×