Erlent

Óvíst um samningsvilja Kína

Chen hitti aftur fjölskyldu sína á miðvikudag eftir sex daga dvöl í bandaríska sendiráðinu.
Chen hitti aftur fjölskyldu sína á miðvikudag eftir sex daga dvöl í bandaríska sendiráðinu. nordicphotos/AFP
Bandarísk stjórnvöld virðast ekki hafa áttað sig á að kínverski andófsmaðurinn Chen Guangcheng hafi yfirgefið sendiráð Bandaríkjanna í Peking nauðugur viljugur, af ótta við öryggi fjölskyldu sinnar.

Gary Locke, sendiherra Bandaríkjanna í Kína, fylgdi Chen á sjúkrahús á miðvikudaginn eftir að hann hafði dvalist sex daga í sendiráðinu. Aðeins fáeinum klukkustundum síðar sagði Chen við blaðamenn að hann vildi komast úr landi með fjölskyldu sinni.

„Við þurfum að ráðgast við þau áfram til að fá betri tilfinningu fyrir því hvað þau vilja gera og hvaða möguleika þau telja sig hafa,“ sagði Victoria Nuland, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins.

Bandaríkjamenn segjast ætla að fylgja málinu eftir, en óvíst þykir að Kínverjar hafi nokkurn áhuga á frekari samningaviðræðum um örlög Chens. Þeir brugðust ókvæða við þegar fréttist að Chen hefði flúið úr stofufangelsi og fengið inni í bandaríska sendiráðinu.

Locke sendiherra sagði upphaflega að Chen hefði fengið fullvissu fyrir því að hann yrði ekki aftur sendur til heimabæjar síns, heldur fengi hann að dvelja á öruggum stað í Kína ásamt fjölskyldu sinni og gæti lagt þar stund á háskólanám.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×