Erlent

Ekki hæfur til að leiða alþjóðlegt fyrirtæki

Rupert murdoch Hart hefur verið deilt á Murdoch en hann er eigandi News Corp sem gaf meðal annars út News of the World. nordic photos/afp
Rupert murdoch Hart hefur verið deilt á Murdoch en hann er eigandi News Corp sem gaf meðal annars út News of the World. nordic photos/afp
Rupert Murdoch er ekki hæfur til að leiða alþjóðlegt stórfyrirtæki. Þetta er niðurstaða menningarmálanefndar breska þingsins sem rannsakað hefur umdeilt hlerunarmál News of the World.

Nefndin var skipuð í júlí 2011 eftir að upp komst að breska slúðurblaðið hefði við fréttaöflun hlerað síma hjá fólki, þar á meðal hinni 13 ára gömlu Milly Dowler og fjölskyldu hennar, en hún fannst myrt þann 18. september árið 2002.

Nefndin komst meðal annars að því að Murdoch var vel meðvitaður um það sem fram fór hjá blaðinu en „kaus að horfa fram hjá því“.

Nefndin fékk vitnisburð meðal annars hjá fyrrverandi blaða- og yfirmönnum News of the World sem og lögreglumönnum og lögfræðingum fólks sem blaðið njósnaði um.

Nefndin klofnaði að vísu þar sem fjórir íhaldsmenn, af tíu nefndarmönnum, gerðu athugasemdir við niðurstöðuna og sögðu hana byggja á flokkapólitík. Sex fulltrúar Verkamannaflokksins og Frjálslyndra demókrata studdu hana hins vegar.

Íhaldsmaðurinn Louise Mensch lýsti skýrslunni sem „mikilli skömm“ og að „trúverðugleiki“ hennar hefði skaðast.

Nefndin sjálf hefur ekki leyfi til að að aðhafast neitt frekar í málinu.

News Corp, útgáfufélag The News of the World, sagðist í tilkynningu vera að fara yfir niðurstöðu skýrslunnar og hygðist svara henni innan skamms en bætti við að fyrirtækið væri vel meðvitað um að starfsmenn blaðsins hefðu haft rangt við og að það bæði þá sem brotið var á afsökunar. - kh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×