Erlent

Chen fer enn huldu höfði

Flótti kínverska andófsmannsins úr stofufangelsi þykir flækja samskipti Bandaríkjanna og Kína.
NordicPhotos/AFP
Flótti kínverska andófsmannsins úr stofufangelsi þykir flækja samskipti Bandaríkjanna og Kína. NordicPhotos/AFP nordicphotos/AFP
Mál kínverska andófsmannsins Chen Guangcheng flækir samskipti Bandaríkjanna og Kína, en fullyrt er að hann hafist við í sendiráði Bandaríkjanna í Peking. Chen slapp úr stofufangelsi á heimili sínu í þorpinu Dong-shigu. Ljóst þykir að hann hafi fengið hjálp þorpsbúa við flóttann, en hann er blindur.

Flótti baráttumannsins hefur gefið kínverskum andófsmönnum byr undir báða vængi, jafnvel þó að kínversk yfirvöld hafi handtekið nokkra stuðningsmenn hans og bælt niður öll skrif um hann á Internetinu. Meðal þeirra sem hneppt hafa verið í varðhald er He Peirong, sem ók Chen á öruggan stað eftir flóttann. Hún fullyrðir að hann sé ekki í sendiráðinu.

Chen er lögfræðingur og hefur barist fyrir réttindum fatlaðra og gegn þeirri stefnu kínverskra stjórnvalda að enginn megi eiga fleiri en eitt barn. Hann hafði verið í stofufangelsi allt frá því hann var látinn laus úr fangelsi árið 2010. Þar afplánaði hann fjögurra ára dóm fyrir meint eignaspjöll og að valda truflunum á umferð. - hhs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×