Skoðun

Örvænting grískra foreldra

Ragnar Schram skrifar
Hvers vegna leita mörg hundruð foreldrar í ESB-ríki til SOS Barnaþorpanna og biðja í örvæntingu samtökin um að taka að sér börn sín vegna fátæktar? Og það á árunum 2011 og 2012!

Nú hefur þetta gerst í Grikklandi. Gríðarleg aukning atvinnuleysis, tekjuskerðingar, skattahækkanir, samdráttur í velferðarkerfinu og fjölgun réttindalítilla innflytjenda veldur því að margir foreldrar sjá sér ekki annað fært en að gefa frá sér börn sín til að tryggja velferð þeirra. Undanfarið hafa yfir þúsund foreldrar í Grikklandi leitað til SOS í ofangreindum erindagjörðum og líklega er það aðeins toppurinn á ísjakanum.

Grikkir þekkja ágætlega til SOS Barnaþorpanna. Samtökin hafa sinnt barnahjálp í Grikklandi frá árinu 1975 og eru þar með þrjú barnaþorp fyrir umkomulaus börn. Þá hafa margir innflytjendur frá þriðjaheimsríkjum séð árangur af starfsemi SOS í sínum heimalöndum og liggur því kannski beinast við að þeir leiti til samtakanna.

Markmið SOS er að öll börn fái þörfum sínum mætt og búi við ástúð og umhyggju. Áðurnefndir foreldrar bera ást til barna sinna, það vantar ekki. Það eru einmitt þær taugar sem knýja örvæntingarfulla foreldrana til aðgerða. En þar sem samtökin telja best fyrir börn að búa með foreldrum sínum taka þau ekki við þessum börnum, nema í algjörum undantekningartilvikum og þá í samráði við yfirvöld. Þess í stað höfum við ákveðið að stórefla Fjölskyldueflingu SOS í Grikklandi. Hún felur í sér fjölbreyttan stuðning við barnafjölskyldur svo ekki þurfi að koma til aðskilnaðar.

Sem dæmi má nefna að fjölskyldur fá helstu nauðsynjar, ráðgjöf varðandi hjónabandið, fjármál, næringu, hreinlæti, uppeldi, réttindi o.fl. Þá fá yngri börn leikskólavist og eldri börn sérsniðna námsaðstoð. Öll aðstoðin miðar að því að fjölskyldan sundrist ekki og að þörfum barnanna verði mætt. Þessi Fjölskylduefling hefur hjálpað barnafjölskyldum um allan heim, sérsniðin að menningu hvers staðar og þörfum hverrar fjölskyldu.

SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa ákveðið að lina þjáningar grískra foreldra í neyð með framlagi upp á 3,3 milljónir króna. Upphæðin er áhugaverð í ljósi þess að uppreiknuð framlög Íslendinga til SOS frá upphafi standa nú í 3,3 milljörðum króna.




Skoðun

Sjá meira


×