Skoðun

Verð á íslenskum rafbókum

Hrafnhildur Hreinsdóttir skrifar
Rafbækur hafa verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár og þær munu einnig koma í auknum mæli inn á íslenskan bókamarkað. Á því leikur enginn vafi. Nú má velta því fyrir sér frá mörgum sjónarhornum hvað sé eðlilegt að greiða fyrir rafbók og hvernig verðmyndun á sér stað.

Fullyrða má að kostnaður við útgáfu rafbóka sé almennt minni en prentaðra bóka þar sem ekki þarf að prenta eitt einasta eintak. Prentkostnaður við meðalskáldsögu er líklega í kringum þúsund krónur miðað við 3-4 þúsund eintaka upplag. Að auki sparast lagerpláss, dreifingarkostnaður og kostnaður við óseld eintök. Svo má nefna að ekkert tré er fellt og breytt í pappír með öllum þeim kostnaði og mengun sem því fylgir. Ég tel því klárlega að verð á rafbókum eigi og muni verða ódýrara en á prentuðum bókum. Það er hins vegar ósennilegt að þær verði á sambærilegu verði og rafbækur á ensku á erlendum vefverslunum, enda er markaðurinn fyrir íslenskar bækur allt annar.

Í hverju felst kostnaðurinn? Það þarf eftir sem áður að ritstýra, brjóta um, hanna útlit, prófarkalesa, markaðssetja og selja. Auglýsinga- og kynningarkostnaður er líklega sá sami og fyrir venjulegar bækur. Þá eru ótalin ritlaun og það sem útgefandi og söluaðili fá í sinn skerf og svo tekur ríkið sitt í formi virðisaukaskatts. Að auki þarf að passa upp á það að rafrænum bókunum sé ekki stolið af netinu og því fylgir kostnaður að búa þær svo úr garði að það gangi eftir. Svo má aftur deila um hvort öll sú fyrirhöfn skili tilætlunum árangri. Það eru rökin sem heyrast fyrir háu verði rafbóka. Það er líka sennilegt að rafbækur sem gefnar eru út af sjálfstæðum útgefendum eða höfundum verði á öðru verðbili en bækur forlaganna þar sem þær eru unnar í gegnum færri eða enga milliliði.

Ég hef töluvert velt því fyrir mér og rætt við aðra hvað sé eðlilegt og réttlátt að greiða fyrir íslenska rafbók. Eftir töluverða íhugun er ég tilbúin til að greiða allt að tvöfalda þá upphæð sem ég borga erlendis (sem er að jafnaði 8-10 dollarar) eða íslenskt kiljuverð. Ástæðan fyrir því að ég er tilbúin til að greiða tvisvar sinnum kostnaðinn við erlendar bækur er löngun mín til lesa á móðurmálinu. Ég get samt ekki talað fyrir aðra.

Síðan ég eignaðist kindilinn minn og svo spjaldtölvuna þá hef ég mest lesið á erlendum tungumálum, og jafnframt aldrei keypt eins mikið af bókum. Ég vil helst lesa á íslensku og kaupa íslenskar rafbækur en mér finnst þær of dýrar hjá Forlaginu – önnur forlög eins og Emma.is eru ódýrari. Ég verð að viðurkenna að það fauk í mig um daginn þegar ég sá að ný innbundin bók var á tilboði ódýrari en rafræn á netinu og fannst mér misboðið sem viðskiptavini. Þá geri ég líka kröfu um það að geta fengið rafbók fljótt og með lítilli fyrirhöfn hvort heldur ég kýs að lesa hana á kindlinum mínum, spjaldtölvunni, eða á símanum en láta ekki útgefendur stýra því á hvaða tæki ég les.

Helsta áskorunin framundan er að búa til íslenskar rafbækur. Ég áætla gróflega að fjöldi rafbóka á íslensku sé á bilinu 200-250 sem bliknar í samanburði við framboð á öðrum tungumálum. Ég á mér þá ósk að útgefendur og rithöfundar taki stærri skref í átt að rafbókaútgáfu og endurskoði verðlagningu rafbóka með það í huga að lesendur eru upp til hópa heiðarlegt fólk sem vill kaupa rafbækur til aflestrar á eðlilegu verði. Kannski er runninn upp sá tími að hægt sé að breyta bókamarkaðnum og dreifa bóksölu yfir lengri tíma en jólabókavertíðin býður upp á, með því að gefa út rafbækur allan ársins hring. Ég myndi altént vera hæstánægð að hafa aðgang að nýjum bókum yfir allt árið en ég er nú líka óttalegur bókaormur. Kannski verður líka einhvern tíma að veruleika sá möguleiki að fá lánaða íslenska rafbók á bókasafninu en það er önnur saga.




Skoðun

Sjá meira


×