Skoðun

Ofnýtt land

Herdís Þorvaldsdóttir skrifar
Á hverju sumri eru 70 þúsund hross og 1.350.000 fjár að elta uppi tætingslegar gróðurleifar landsins allt sumarið án nokkurrar ábyrgðar eigenda þeirra.

Landgræðslustjóri segir að til séu engin lög í landinu sem virki þannig að þau heimili henni að grípa til neyðarúrræða vegna ofbeitar eða landníðslu. Bændur hafi allt forræði og eignarhald á nýtingu lands, hvort sem það séu þjóðlendur eða ekki. Er þetta ekki það fyrsta sem þarf að leiðrétta í gömlum og úrsérgengnum lögum? Þó er brýnast af öllu að setja lög um það, að starfsstétt sem byggir afkomu sína á ræktun búfjár hafi sínar skepnur á sínu eigin landi en ekki annarra.

Við skattgreiðendur greiðum sauðfjárbændum rúma fjóra milljarða á ári fyrir að framleiða þessar skepnur, helmingi fleiri en þörf er á. Þessar greiðslur eru auðvitað framleiðsluhvetjandi, því fleiri kindur, því meiri peninga. Þetta er grátbrosleg aulastefna, því jafnfamt hefur verið reynt með hikandi hendi að fá eitthvað af öllum þessum fjárbændum með alla þessa offramleiðslu til að snúa sér að einhverju öðru.

Má þar nefna vinnu við uppgræðslu lands o.fl. og lofað stuðningi við breytingar á rekstri fjárbúa en fengið nánast engar undirtektir. Jafnvel þó sumir af þessum bændum eigi ekki einu sinni land fyrir þessar skepnur sínar, en láti þær bara ganga á annarra manna löndum öllum til mikils ama. Slíkt óréttlæti er ekki hægt að koma í veg fyrir á meðan löngu úrelt rányrkja með lausagöngu búfjár er ennþá við lýði. Allir aðrir landsmenn verða að girða sig af frá sauðkindinni, í stað þess að girða hana af.

Við megum líka þola það að þegar við förum um landið í sumarfríinu okkar þá erum við oft á niðurnöguðum blómlausum beitilöndum, nema á fáeinum uppgræddum og afgirtum svæðum og girðingavír okkur til yndisauka meðfram öllum vegum. Landgræðslan var stofnuð af Alþingi fyrir rúmum 100 árum til að græða upp stórskemmda landið okkar. Hún hefur fengið milljarða frá ríkinu en nær varla að halda í við skemmdirnar vegna ofbeitarinnar. Eigum við að halda svona áfram næstu hundrað árin bara svo að þeir sem sitja á þingi þurfi ekki að óttast um atkvæðin sín frá bændum ef stuggað væri við þessum forréttindum þeirra. Hvað annað gæti komið í veg fyrir þessar nauðsynlegu breytingar, landinu og ríkissjóði til góðs?

Svar óskast!




Skoðun

Sjá meira


×