Lífið

Lærir að flétta hár dætranna

Þórdís segir sig og dætur sínar allar vera með mjög þykkt hár. Hún vonast til að læra að gera mismunandi fléttur í þær, og jafnvel sjálfa sig, á námskeiðinu.
Þórdís segir sig og dætur sínar allar vera með mjög þykkt hár. Hún vonast til að læra að gera mismunandi fléttur í þær, og jafnvel sjálfa sig, á námskeiðinu. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Útskriftanemar í hárgreiðslu frá Iðnskólanum í Hafnarfirði ætla að halda námskeið þar sem kenndar verða einfaldar barnagreiðslur gegn vægu verði.

Tíska „Ég á þrjár dætur, þriggja, fjögurra og sjö ára, og langar mikið að verða betri í að gera alls konar greiðslur í þær," segir Þórdís Brynjólfsdóttir, sem hyggst mæta á sérstakt hárgreiðslunámskeið fyrir foreldra í þeirri von að fullkomna kunnáttu sína í að greiða dætrum sínum.

Þórdís segist hafa heyrt af svona námskeiði áður, en að þá hafi verið einblínt á feður. Hún segir sjálfa sig og dætur sínar allar vera með þykkt hár sem erfitt sé að eiga við. „Ég sendi stelpurnar nú aldrei út úr húsi nema þær séu snyrtilega greiddar, en yfirleitt eru þær bara með tagl eða spennur. Ég er voða klaufsk við að flétta og vonast helst til að læra að gera mismunandi fléttur, það er nú svo mikið í tísku í dag þetta fléttudæmi," segir Þórdís sem reiknar með að taka tvær eldri stúlkurnar með sér á námskeiðið.

Ólöf Sunna Magnúsdóttir, einn útskriftarnemanna sem stendur á bakvið námskeiðið, segir það hugsað fyrir alla þá sem eiga erfitt með að greiða börnunum sínum. Mæður, feður og jafnvel ömmur og afar eru velkomin. „Sumir eiga í erfiðleikum með það eitt að setja teygjur í hár barnanna sinna meðan aðrir vilja kannski læra einhverjar sætar barnagreiðslur, en við ætlum að kenna allan skalann," segir hún og bætir við að dúkkuhausar verði á staðnum fyrir þá sem hafa ekki tök á að taka börn með sér eða eru með börn með of lítið hár.

Námskeiðið er haldið sem fjáröflun til að standa undir kostnaði við útskriftina og fer fram á Hárgreiðslustofu Hrafnhildar í Árbænum þann 17.mars. Í boði verða tvö námskeið sem áætlað er að taki um eina og hálfa klukkustund hvort, og hefjast þau klukkan 10 og 12. Verði mikil aðsókn verður svo bætt við námskeiði klukkan 14. Verðið er 2.500 krónur og hægt er að skrá sig á tölvupóstfanginu margretosk1@hotmail.com.

tinnaros@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.