Erlent

Hundruð þúsunda á flótta

Sergei Lavrov Utanríkisráðherra Rússlands að loknum fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Sergei Lavrov Utanríkisráðherra Rússlands að loknum fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. fréttablaðið/AP
Um 230 þúsund manns eru á flótta vegna átakanna í Sýrlandi, samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Um þrjátíu þúsund þeirra hafa flúið til nágrannaríkjanna Tyrklands, Líbanons og Jórdaníu en um 200 þúsund eru á hrakhólum innanlands. Daglega flýja hundruð manna yfir landamærin.

Sameinuðu þjóðirnar hafa fyrir nokkru staðfest að aðgerðir stjórnarhersins hafi kostað 7.500 manns lífið, en uppreisnarmenn segja fjölda látinna kominn yfir 8.500.

Nabil Elaraby, leiðtogi Arababandalagsins, segir að dráp sýrlenska hersins á almennum borgurum sé glæpur gegn mannkyni. Ráðamenn verði því að draga fyrir alþjóðlegan stríðsglæpadómstól. Það væri siðleysi að láta þá sem bera ábyrgð á fjöldamorðunum í Homs og Idlib komast upp með glæpi sína.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ítrekaði í gær þá afstöðu Rússa að stjórnvöld og uppreisnarmenn í Sýrlandi verði sjálfir að finna lausn á deilum sínum.

Bæði Rússar og Kínverjar höfnuðu í febrúar íhlutun á vegum Sameinuðu þjóðanna.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×