Skoðun

Rökvís rödd Samtaka lánþega

Guðmundur Andri Skúlason skrifar
Í aðdragandi setningar svokallaðra Árna Páls laga, voru gerð mörg mistök og afdrifarík. Við viljum gera ráð fyrir að menn hafi þar viljað gera vel. Það bara tókst ekki. Tjón varð verulegt hjá mörgum einstaklingum og fyrirtækjum. Sumir fóru í þrot og aðrir flúðu.

Nú stöndum við í svipuðum sporum og í lok árs 2010. Óvissa er um túlkun á eftirstöðvum lána og greiðslubyrði þeirra. Sama óvissa er því einnig um framtíð lánþega og fjármálafyrirtækja. Okkur ber skylda til að eyða þeirri óvissu og jafnframt að koma í veg fyrir að sömu mistök verði gerð og þau er leiddu til setningar Árna Páls laganna.

Þau mistök fólust fyrst og síðast í því að ekki var tekið tillit til sjónarmiða lánþega og rökfastra lagaraka þeirra. Á fundum með efnahags- og viðskiptanefnd að undanförnu, höfum við ítrekað þá skoðun okkar að unnið verði út frá þeirri stöðu sem við blasir og horft til framtíðar. Við höfum ítrekað þann vilja okkar að við fáum fulltrúa á fundum Samstarfshóps um eftirfylgni og áhrif gengislánadóms Hæstaréttar. Við höfum jafnframt bent á þann vilja okkar að koma að viðræðum við Samtök fjármálafyrirtækja um aðgerðir og framhald í málaferlum, til að tryggja svör.

Við teljum að málefnaleg og rökræn afstaða Samtaka lánþega til álitamála sem eru hér til umræðu sé nauðsynlegt innlegg í þá umræðu sem framundan er. Við viljum forðast klúður og við viljum forðast réttindabrot á lánþegum. Við viljum tryggja að rödd okkar heyrist við borðið og að við fáum þá jafnframt tækifæri til að heyra ómengaða afstöðu stjórnvalda og fjármálafyrirtækja. Aðeins þannig geta allir tekið upplýsta ákvörðun um aðgerðir.

Það er eiginlega kominn tími til að hlustað sé á rödd Samtaka lánþega. Sú rödd hefur hingað til haft rétt fyrir sér um álitamálin og túlkað niðurstöður af rökvísi.




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×