Skoðun

Verðtrygging fjárskuldbindinga

Björn Matthíasson skrifar
Hin fjöruga umræða um verðtryggðar skuldir – aðrar en gengistryggðar – undanfarnar vikur einkennist af því að engar almennilegar tölur virðast vera til staðar um hvernig verðtryggðar skuldir heimila standa eftir að flestar fjármálastofnanir hafa aðlagað þær til lækkunar á sl. ári í kjölfar laga þar að lútandi.

Helgi Hjörvar alþingismaður hefur stigið fram fyrir skjöldu og lagt til að skattur verði lagður á lífeyrissjóði (áður tillaga sjálfstæðismanna) og tekjurnar notaðar til að lækka skuldir þeirra sem keyptu íbúðir á tímabilinu 2004-2008. Hann ítrekar þessa skoðun sína í grein í Fréttablaðinu á hlaupársdag. Forsætisráðherra skrifaði grein í Fréttablaðið fyrir nokkru sem greinilega ber með sér að engar tölur eru fyrir hendi um umfang verðtryggðra skulda heimilanna eftir að mestallri aðlögun þeirra er lokið.

En þessar tölur liggja fyrir. Ríkisskattstjóri hefur undanfarnar vikur safnað saman tölum um skuldir heimila við helstu fjármálastofnanir, og þessa dagana er verið að dæla tölunum rafrænt inn á skattframtöl einstaklinga sem birt verða þeim í næsta mánuði. Fjármálaráðuneytið getur unnið upplýsingar úr þeim tölum sem sýna ótvírætt hvernig staða heimila með verðtryggðar skuldir var í raun um sl. áramót. Nýi fjármálaráðherrann hefur væntanlega ekki gert sér grein fyrir að þessar tölur eru innan seilingar og hægt er að vinna þær skjótt og vel.

Þær tölur ættu að sýna stjórnvöldum hver staða verðtryggðra skulda heimila er, hvaða heimili það eru sem enn standa uppi með óviðráðanlegan skuldavanda eftir skuldaaðlögun og hvaða ráðum er hægt að beita til að hjálpa þeim. Á meðan þessi úrvinnsla fer fram, ættu stjórnarliðar að halda ró sinni og ekki geysast fram með nýjar tillögur um úrlausn verðtryggða skuldavandans, meðan þeir hafa ekki gögn í höndunum til að byggja tillögur sínar á.




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×