Skoðun

Sá yðar sem syndlaus er

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir skrifar
„Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim.

Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við hann: „Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?" Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.

Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana." Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum.

Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?" En hún sagði: „Enginn, herra." Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar." Jóh. 8:2-11

Guð er að yfirgefa íslensku þjóðina. Guð, sem Geir Haarde bað að blessa íslensku þjóðina og margir hlógu að, er að yfirgefa Ísland. Farinn. Hann hefur lotið í lægra haldi fyrir Mammoni. Mammon drottnar yfir Íslandi.

Dómstólarnir eru hans tæki og skilja milli góðs og ills. Þeir sem eiga peninga, hafa tengsl og völd eru góðir og þeim guði þóknanlegir, hinir ekki. Mennirnir sem buðu sjóræningjum um borð í Þjóðarskútuna, átu og drukku og skiptu auði þjóðarinnar með þeim; mennirnir sem breyttu Þjóðarskútunni í Galeiðu, lifa í vellystingum ásamt sjóræningjunum. Skipstjórinn sem sat í brúnni þegar stjórnlaus Galeiðan steytti á skeri, hann einn verður sóttur til saka. Áhöfnin lét sig hverfa með aðstoð vina sinna.

„Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum." Farísearnir og fræðimennirnir í sögunni um Jesú fóru burt einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Alþingismenn, sem hafa m.a. selt íslensk heimili og fjölskyldur í hendur erlendra vogunarsjóða, þykjast þess umkomnir að ákæra fyrrverandi kollega sinn og varpa honum einum fyrir dómstólana. Þeir kasta nú steinum, hver sem betur getur, til að draga athyglina frá sjálfum sér.

„Vei, íslensku þjóðinni".




Skoðun

Sjá meira


×