Lífið

Með hnút í maganum

Kvikmyndin Svartur á leik verður frumsýnd annað kvöld. Þetta er fyrsta kvikmynd leikstjórans Óskars Þórs Axelssonar og hefur verið mörg ár í vinnslu. Myndin er byggð á samnefndri metsölubók höfundarins Stefáns Mána og segir frá Stebba psycho sem flækist óvart inn í dimma undirheima Reykjavíkur í lok síðustu aldar. Með aðalhlutverk fara Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Damon Younger og María Birta Bjarnadóttir.

Myndin hefur verið tæpan áratug í vinnslu og viðurkennir Óskar Þór að tilfinningarnar séu blendnar nú þegar komið er að frumsýningardegi. „Tilfinningin er að mestu góð en að einhverju leyti skrítin. Þetta er svolítið eins og þegar barnið manns flytur að heiman, maður neyðist til að sleppa af því hendinni og leyfa því að pluma sig upp á eigin spýtur."

Svartur á leik er fyrsta kvikmynd Óskars Þórs en hann skrifaði einnig handritið að myndinni. Hann kveðst stoltur af sköpunarverki sínu og er spenntur að sjá myndina á hvíta tjaldinu.

„Þetta er mín fyrsta kvikmynd og þar sem undirbúningstíminn var svo langur þurfti maður að sýna mikla þolinmæði sem gat á stundum verið erfitt. Tökutímabilið var mjög skemmtilegt og ánægjulegt og eftirvinnslan sömuleiðis. Manni finnst hálf súrrealískt að þetta sé loks búið eftir allan þennan tíma og er auðvitað með svolítinn hnút í maganum fyrir frumsýningardaginn. En maður getur ekki falið sig, maður stendur og fellur með myndinni."

Óskar Þór er þegar farinn að leiða hugann að nýjum verkefnum en segir þau hanga á sömu spýtu og Svartur á leik. „Maður er alltaf með hugann við önnur verkefni, en framhald þeirra ræðst svolítið á því hvort þessi mynd standi sig," segir Óskar að lokum.

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.