Lífið

Leikur ástkonu Ólafs Darra

Það er skammt stórra högga á milli hjá leikkonunni Maríu Birtu Bjarnadóttur en hún leikur annað aðalhlutverkanna í nýju íslensku myndinni XL ásamt Ólafi Darra Ólafssyni. Hún fer einnig með hlutverk í kvikmyndinni Svartur á leik sem verður frumsýnd á morgun.
Það er skammt stórra högga á milli hjá leikkonunni Maríu Birtu Bjarnadóttur en hún leikur annað aðalhlutverkanna í nýju íslensku myndinni XL ásamt Ólafi Darra Ólafssyni. Hún fer einnig með hlutverk í kvikmyndinni Svartur á leik sem verður frumsýnd á morgun. Fréttablaðið/GVA
„Ég sagði við stelpurnar í búðinni að þær yrðu að bjarga sér án mín fram í apríl," segir María Birta Bjarnadóttir, leikkona og eigandi verslunarinnar Manía, en hún hefur tekið að sér að leika annað aðalhlutverkanna í íslensku myndinni XL.

Myndin XL er í leikstjórn Marteins Þórssonar og fjallar um þingmann sem berst við áfengissýki og er skikkaður í meðferð af yfirmanni sínum. Þingmaðurinn ákveður því að fara á einn svæsinn drykkjutúr með hörmulegum afleiðingum. Ólafur Darri Ólafssona fer með hlutverk þingmannsins og leikur María Birta ástkonu hans. Tökur fara fram á höfuðborgarsvæðinu í mars og með önnur hlutverk fara þau Elma Lísa Gunnarsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir og Þorsteinn Bachmann.

„Þetta gerðist ótrúlega hratt. Aðstandendur myndarinnar höfðu samband við mig fyrir þremur vikum síðan og ég gat einfaldlega ekki sagt nei. Ég er mjög spennt en þetta verður samt erfiðasta hlutverk sem ég hef tekið að mér. Leikstjórinn gerir miklar kröfur sem ég verð að standa undir," segir María Birta en Marteinn sjálfur skrifar handritið ásamt rithöfundinum Guðmundi Óskarssyni sem einnig framleiðir myndina ásamt Ólafi Darra og Ragnheiði Erlingsdóttur. Stefnt er á frumsýningu XL með haustinu.

María Birta byrjar í tökum á sunnudaginn og því skammt stórra högga á milli hjá leikkonunni sem leikur stórt hlutverk í myndinni Svartur á leik sem frumsýnd verður á morgun. „Þetta hefur gengið vel en ekki grunaði mig að ég mundi frumsýna tvær íslenskar myndir á árinu," segir María Birta sem er með þéttskipaða dagskrá næstu mánuðina en í lok mars heldur hún til Flórída í fallhlífarstökkskóla í einn mánuð.

„Ég ákvað strax í haust að flýja land eftir að Svartur á leik væri frumsýnd. Ég hef ekki séð myndina sjálf en ég er viss um að ég verð feimin að ganga niður Laugaveginn. Þess vegna er gott að ég fari bara beint í tökur," segir María Birta og vísar í svæsnar senur myndarinnar sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlun.

Hún ætlar að taka foreldra sína með sér á frumsýninguna á morgun. „Ég er einhleyp svo ég tek mömmu og pabba með. Ég veit að það verður óþægilegt að horfa á sumar senurnar á hvíta tjaldinu," segir María Birta að lokum.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.