Lífið

Vill að Walcott efni sex ára loforð og komi til Íslands

Kjartan Björnsson vill fá Theo Walcott, leikmann Arsenal, til Íslands í sumar.
Kjartan Björnsson vill fá Theo Walcott, leikmann Arsenal, til Íslands í sumar. Mynd/Eyþór
„Ég ætla að herja á hann og fá hann kannski til að koma hérna einn laugardag," segir Kjartan Björnsson, hárskeri á Selfossi og aðdáandi enska knattspyrnuliðsins Arsenal.

Fyrir sex árum tók Kjartan loforð af Theo Walcott, leikmanni Arsenal, um að hann kæmi til Íslands í tilefni 30 ára afmælis Arsenal-klúbbsins, sem er einmitt í ár. „Þetta var eftir leik á Highbury þegar hann var nýbúinn að skrifa undir. Ég ákvað að grípa hann strax af því að þetta var vonarstjarna. Ég bauð hann velkominn til Arsenal og sagði að ég þyrfti að eiga við hann erindi eftir nokkur ár um að koma til Íslands og fagna með okkur 30 ára afmælinu. Ég ákvað að horfa svolítið fram í tímann með þetta og hann játti því þá," segir Kjartan, sem er fyrrverandi formaður Arsenal-klúbbsins.

Walcott, sem verður 23 ára í mars, gekk til liðs við Arsenal frá Southampton 2006. Sama ár varð hann yngsti leikmaðurinn til að spila í treyju enska A-landsliðsins, eða sautján ára. Á ferli sínum með Arsenal hefur hann skorað 39 mörk og lagt upp 37 til viðbótar í 209 leikjum. Framherjinn eldsnöggi skoraði tvö mörk gegn Tottenham um síðustu helgi og er því sjóðheitur um þessar mundir en fram að því hafði hann legið undir nokkurri gagnrýni hjá aðdáendum Arsenal fyrir frammistöðu sína á tímabilinu.

Kjartan stefnir á að hitta Walcott á Englandi í vor í von um að hann efni loforð sitt. Hugmyndin er að hann heimsæki Ísland í sumar þegar hann verður í fríi frá æfingum og leikjum. „Ég vil ekki taka fram fyrir hendurnar á sitjandi stjórn Arsenal-klúbbsins en ég trúi því nú frekar að þeir hafi ekkert á móti þessu."

Kjartan er þegar byrjaður að hita Walcott upp og sendi honum nýverið orðsendingu á Facebook.

„Auðvitað fá þeir alls konar svona tilboð en ég stefni á að herma þetta alveg stíft upp á hann. Svo sjáum við til hvað hann er mikill maður."

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.