Innlent

1.200 íslenskar kvikmyndir á sama stað

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, opnaði vefinn í Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, opnaði vefinn í Kvikmyndamiðstöð Íslands. fréttablaðið/anton
Gagnagrunnur um íslenska kvikmyndagerð með rúmlega 1.200 titlum og tæplega átta þúsund einstaklingum hefur verið opnaður á síðunni Kvikmyndavefurinn.is.

„Þetta er rosalega stórt verkefni,“ segir Þór Tjörvi Þórsson hjá Kvikmyndastöð Íslands, sem vann gagnagruninn í samvinnu við Menntamálaráðuneytið. „Við höfum verið að slá þetta allt inn og þetta er búið að vera í ferli í dálítinn tíma.“

Gagnagrunnurinn er sá ítarlegasti sem til er um íslenska kvikmyndagerð. Þar er að finna upplýsingar um hverjir störfuðu við allar þær kvikmyndir, teiknimyndir eða sjónvarpsþætti sem hafa komið út á Íslandi. Ýmsar fleiri upplýsingar eru á síðunni, þar á meðal eru plaköt, sýnishorn, frumsýningardagar og á hvaða hátíðum myndirnar hafa verið sýndar.

Settur var aukinn kraftur í verkefnið fyrir tveimur árum og munaði þar mikið um þátttöku Kvikmyndamiðstöðvarinnar í vinnuátaki á vegum Vinnumálastofnunar og Félagsmálaráðuneytisins. „Við fengum sex einstaklinga til að vinna að þessu og þeir voru í tvo mánuði að stimpla inn. Við fengum svo þrjá í fyrra og við hefðum ekki getað verið án þessa fólks,“ segir Þór.

Hann bætir við að upplýsingarnar á vefnum séu ekki endilega allar hárréttar og hvetur fólk til að láta Kvikmyndamiðstöðina vita ef það kemur auga á eitthvað sem má lagfæra.“

Vefurinn hefur annars fengið góð viðbrögð frá fólki í kvikmyndabransanum. „Það er mjög ánægt með að hafa þetta allt á einum stað.“ -fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×