Lífið

Veitir stjörnunni Anthony Hopkins tónlistarráðgjöf

Atli Örvarsson hefur starfað með stórleikaranum Anthony Hopkins að undanförnu.
Atli Örvarsson hefur starfað með stórleikaranum Anthony Hopkins að undanförnu.
„Hann er ótrúlega ljúfur maður og eins kurteis og almennilegur í framkomu og hægt er að vera,“ segir Atli Örvarsson, tónskáld í Hollywood.

Atli hitti nýverið stórleikarann Anthony Hopkins í hljóðveri sínu í Santa Monica. Þeir ræddu um samstarf í tónlistinni en Hopkins hefur gert töluvert af því að semja tónlist, þar á meðal við kvikmyndir sem hann hefur sjálfur leikstýrt.

„Það var sameiginlegur vinur okkar sem stakk upp á mér til að hjálpa honum. Í rauninni var hann að leita að einhverjum til að hjálpa sér við útsetningar. Ég hugsaði með mér að maður gæti dregið einhvern lærdóm af því að sitja í klukkutíma með Anthony Hopkins,“ segir Atli. „Við hittumst um daginn og hann talaði um að við myndum vinna með þetta meira. Hann er með ýmsar hugmyndir í pokahorninu. Hann er búinn að vera að semja í gegnum tíðina og vill koma því í fastara form,“ segir hann og bætir við í léttum dúr: „Ég djókaði með að það yrði sett sem skilyrði áður en ég hitti hann að hann væri búinn að fá sér staðgóðan morgunverð.“ Vísar hann þar í Óskarsverðlaunahlutverk Hopkins sem mannætan Hannibal Lecter í Silcence of the Lambs.

Hlé er á samstarfi þeirra um þessar mundir vegna þess að Hopkins þurfti að drífa sig til Bretlands til að leika þar í nýrri mynd. Þeir munu taka aftur upp þráðinn síðar á árinu.

Atli er sjálfur staddur hér á landi. „Ég fékk tilnefningu til Eddu-verðlaunanna fyrir tónlistina fyrir Eagle og ákvað að nota það sem afsökun til að skreppa heim og heimsækja vini og vandamenn.“

Atli hefur búið í tæp tuttugu ár í Bandaríkjunum. Hann hefur unnið töluvert undir leiðsögn hins þekkta tónskálds Hanz Zimmer og aðstoðaði hann m.a. við gerð tónlistarinnar við myndirnar Englar og djöflar, Pirates of the Caribbean og Frost/Nixon.

Vegur hans í Hollywood hefur verið að aukast smátt og smátt undanfarin ár. Hann hefur upp á eigin spýtur samið tónlist við fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta, þar á meðal Season of the Witch, The Code og Law and Order. Núna síðast gerði hann samning við Paramount Pictures um að semja tónlistina við rándýra hasarmynd byggða á ævintýrinu um Hans og Grétu sem verður frumsýnd síðar á árinu.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.