Erlent

Viðræðurnar dragast enn

Mótmælin gegn nýju aðhaldsaðgerðunum urðu ekki jafn fjölmenn og oft áður, enda hafa fáir lengur efni á launalausum verkfallsdegi, auk þess sem veður var slæmt í gær.
Mótmælin gegn nýju aðhaldsaðgerðunum urðu ekki jafn fjölmenn og oft áður, enda hafa fáir lengur efni á launalausum verkfallsdegi, auk þess sem veður var slæmt í gær. nordicphotos/AFP
Grísku stjórninni tókst ekki í gær, frekar en síðustu daga, að leggja lokahönd á nýja aðhaldsáætlun til að tryggja fjárhagsaðstoð frá ESB og AGS. Almenningur í Grikklandi efndi til mótmæla um land allt í gær.

Viðræður grísku stjórnarinnar við lánardrottna, björgunarmenn og eigin flokksfélaga um nýjar aðhaldsaðgerðir og fjárhagsaðstoð hafa dregist á langinn dag eftir dag, þrátt fyrir mikla pressu. Litlar líkur þóttu til þess í gær að niðurstaða fengist, en vonast var til að hún lægi fyrir í dag.

Íbúar Grikklands héldu tugþúsundum saman út á götur í gær til að mótmæla nýjum aðhaldsáformum stjórnvalda, sem á hinn bóginn eru undir miklum þrýstingi frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fjárhagsaðstoð frá þeim fæst ekki fyrr en áætlun um niðurskurð og sparnað þykir orðin sannfærandi, en án fjárhagsaðstoðar kemst gríska ríkið í greiðsluþrot 20. næsta mánaðar.

Gríska stjórnin hefur verið treg til að fallast á frekari niðurskurð sem íþyngir almenningi, ofan á allar þær skattahækkanir, launalækkanir og aðrar aðgerðir sem meðal annars hafa aukið mjög á atvinnuleysi og fátækt í landinu.

Þriggja manna nefndin frá ESB, AGS og Seðlabanka ESB hefur á ströngum fundum síðustu vikuna krafist þess að dregið verði úr ríkisútgjöldum um 1,5 prósent af landsframleiðslunni, eða 3,3 milljarða evra. Heimildir grískra dagblaða fullyrtu að niðurstaðan yrði sú að sparnaðurinn verði 2,5 milljarðar evra og megnið af því, eða 1,1 milljarður evra, fáist með því að draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu.

Þjóðverjar og Frakkar hafa á síðustu dögum sett fram nýjar kröfur um að peningarnir frá ESB og AGS fari inn á sérstakan reikning, sem gríska stjórnin geti eingöngu notað til þess að greiða lánardrottnum sínum.

Traust evruríkjanna til Grikkja er greinilega af skornum skammti og talin þörf á að tryggja að gríska stjórnin noti ekki peningana í önnur verkefni ríkisins en þau að greiða niður skuldirnar.

Þetta vantraust stafar meðal annars af því að grísku stjórninni hefur ekki gengið sem skyldi að standa við fyrri sparnaðaráform sín. Þannig hafa metnaðarfull áform um sölu ríkiseigna, sem átti að skila miklu í ríkissjóðinn, ekki gengið eftir nema að litlum hluta – ekki síst vegna þess að eftirspurnin hefur engan veginn verið í samræmi við þær væntingar, sem stjórnin hafði.

Neelie Kroes, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, segir það reyndar ekki rétt að evrusamstarfið muni hrynja ef eitt ríki segir skilið við það.

„Það er alltaf sagt að ef einu ríki er leyft að fara út, ef það biður um það, að þá muni allt kerfið hrynja. En það er einfaldlega ekki rétt,“ sagði hún í viðtali við hollenskt dagblað. „Grikkir verða að átta sig á því að við Hollendingar og Þjóðverjar getum því aðeins boðið skattgreiðendum okkar upp á neyðaraðstoð handa Grikkjum ef raunveruleg merki sjást um vilja til góðra verka.“gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×