Lífið

Sigruðu með flutningi til heiðurs látnum kennara

„Þetta var allt svolítið á hundavaði en við sungum lagið alls níu sinnum fyrir keppnina," segir Agnar Ólason, formaður og annar stofnandi Karlakórs Sjómannaskólans.

Karlakór Sjómannaskólans gerði sér lítið fyrir og sigraði í undankeppni skólans fyrir Söngkeppni framhaldsskólanna nú á dögunum. Kórinn flutti lagið Undir bláhimni en flutningurinn var tileinkaður Einari G. Gunnarssyni, sem fórst með togaranum Hallgrími SI-77 í sjóslysi við Noregsstrendur 25. janúar síðastliðinn. Einar hafði verið kennari við skólann í hátt í 35 ár og mörgum kórmeðlimum mjög kær.

Hugmyndin að kórnum kviknaði í haust en það var þó ekki fyrr en nú um áramótin sem Agnar og samnemi hans, Bergsteinn Ingólfsson, hrintu henni í framkvæmd. Stofnfundur kórsins var haldinn 19. janúar síðastliðinn, eða 13 dögum fyrir keppnina. „Við stefndum á að taka þátt í keppninni frá upphafi, en vorum ekki vissir um að ná því með svo stuttum fyrirvara. Ég ákvað svo að skrá okkur til leiks og það var ekki aftur snúið þaðan," segir Agnar.

Kórinn samanstendur af 36 manns auk tveggja heiðursmeðlima, bræðranna Andra Snæs og Braga Fannars Þorsteinssona sem spila á harmonikku. Núverandi og fyrrverandi nemendur Vélskólans og Stýrimannaskólans eru gjaldgengir meðlimir í kórnum, þó aðeins núverandi nemendur megi taka þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna á Akureyri nú í mars.

Agnar segir menn hafa tekið vel í framtakið frá upphafi, enda erfitt að hrinda einhverju svona í framkvæmd án þess að velvilji og góður andi sé til staðar. Hann segir menn afar spennta fyrir keppninni á Akureyri „Það er mikil skipulagning í gangi um hvar skuli stoppa á leiðinni til að taka lagið. Eins og er þykir Varmahlíð líklegust, enda nokkrir Skagfirðingar í kórnum," segir hann.

Áhugasömum er bent á Aðdáendasíðu Karlakórs Sjómannaskólans á Facebook.

tinnaros@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.