Skoðun

Ætlar þú að þrýsta á hnappinn?

Gísli Sigurðsson skrifar
Fyrir Alþingi liggur rammaáætlun um nýtingu vatnsafls til raforkuframleiðslu í landinu. Markmið rammaáætlunar er að ná almennri sátt um virkjanastefnu þannig að landslýðurinn þurfi ekki að þrasa sig rænulausan um hverja einustu framkvæmd í nánustu framtíð.

Fyrir liggur að mikil óeining hefur skapast í kringum áform Landsvirkjunar um virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Það sem var í upphafi kynnt sem sakleysisleg rennslisvirkjun, sem fólki fannst að myndi bara snúast með ánni um leið og hún færi hjá án þess að hafa nokkur áhrif á umhverfið, hefur reynst vera stórhættuleg framkvæmd fyrir stærsta villta laxastofn landsins og aðra göngufiska í Þjórsá. Reynsla annarra þjóða af virkjunum af þessu tagi hefur gefið tilefni til að reikna með hruni göngustofna í ánni, þannig að 10-20% laxastofnsins gæti lifað af en sjóbirtingsstofninn myndi þurrkast út – þrátt fyrir boðaðar mótvægisaðgerðir.

Þjórsá er ein síðasta sjálfbæra laxveiðiáin við N-Atlantshaf, sem hægt er að veiða villtan lax úr til sölu á markaði. Á nýliðnu ári var veiðin nálægt tíu þúsund löxum og miðað við kílóverð á villtum laxi úr sjálfbærri á í Harrods-verslununum á Englandi (130 sterlingspund/kg) má reikna með að söluandvirði ársaflans (miðað við eintóman smálax) sé 2 kg x 130 sterlingspund x 10.000 laxar = 2,6 milljónir punda eða ríflega hálfur milljarður íslenskra króna. Má af þessu sjá hvílíkt dýrindi er hér um að ræða þegar það er komið á matardisk fólks.

Alkunna er að laxinn er enn verðmætari sé hann nýttur til stangveiða. Með því að stækka og efla búsvæði fiskistofna á vatnasvæði Þjórsár mætti stórauka þessa veiði og þannig margfalda tekjurnar sem áin gæti gefið af sér með markaðssetningu, án nokkurra virkjana. Eru þá ótalin þau verðmæti fyrir allt íslenskt markaðsstarf sem fólgin eru í ímyndinni um sjálfbærni, náttúruvernd og ómengaðar afurðir.

Það er ógnvekjandi ef þingmenn eru enn að gæla við þá hugmynd að þeim sé heimilt fyrir guðs og manna lögum að taka sér það vald að útrýma slíku fágæti sem villtu laxa- og sjóbirtingsstofnarnir í Þjórsá eru.




Skoðun

Sjá meira


×