Lífið

Austur hættir að vera steikhús

Austur byrjaði sem skemmtistaður, þangað til Ásgeir Kolbeinsson breytti staðnum í steikhús. Í dag er Austur aðallega skemmtistaður.
Austur byrjaði sem skemmtistaður, þangað til Ásgeir Kolbeinsson breytti staðnum í steikhús. Í dag er Austur aðallega skemmtistaður.
"Þegar við fórum að skoða tölurnar komust við að því að það myndi frekar borga sig að einbeita sér að því að reka skemmtistað," segir Ásgeir Kolbeinsson, einn af eigendum skemmtistaðarins Austur.

Ásamt því að vera skemmtistaður hefur Austur verið rekið sem steikhús undanfarin misseri. Nú hafa Ásgeir og félagar ákveðið að hætta því, en halda eldhúsinu þó opnu fyrir hópa sem leggja staðinn undir veislur og aðra skemmtanir.

"Það hefur verið vinsælast í matnum; vinnuhópar og ferðamenn. Við viljum halda því áfram, gera það enn betur og svara eftirspurninni, sem er til staðar, um að fá staðinn undir hópa. En við hættum að vera með à la carte-matseðil alla daga vikunnar," segir Ásgeir.

Austur byrjaði sem skemmtistaður og það má því segja að staðurinn sé að fara aftur til upprunans. Ásgeir segir rekstur steikhússins og skemmtistaðarins ekki hafa farið vel saman. "Helsta ástæðan er sú að það er erfitt að reka svona stóran og vinsælan skemmtistað á meðan það er alltaf verið að biðja um að fá hann leigðan undir skemmtanir, afmæli eða veislur," segir hann. "Við þurftum að hafna slíku vegna þess að veitingastaðurinn var opinn. Það passar ekki alveg að vera með veislu í gangi á meðan fólk situr og er að borða."

Þurftirðu að segja mörgum upp?

"Nokkrum, ekki mörgum. Flestum var hægt að koma fyrir á öðrum veitingastöðum í bænum."

Ásgeir segir að eftir sem áður verði Austur opið á daginn, með kaffi og kökur á boðstólnum. Auk þess sem ýmislegt annað er á döfinni, að sögn Ásgeirs.

atlifannar@frettabladid.is


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.