Skoðun

Hvað ef hið óhugsandi gerist?

Þórir Guðmundsson skrifar

Við Íslendingar búum í landi eldgosa, jarðskjálfta, snjóflóða og veðurofsa. Í ellefuhundruð ára sögu byggðar höfum við lært að búa við þau skilyrði sem náttúran setur okkur.

Á undanförnum árum höfum við að auki byggt upp kerfi fyrir viðbrögð við vá. Björgunarsveitir bjarga fólki, Rauði krossinn hlúir að þeim sem þurfa að yfirgefa heimili sín með skjóli, fæði og klæðum eins og með þarf. Opinberir aðilar skipuleggja starfið undir forystu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Sem betur fer hafa hamfarir, sem yfir okkur hafa dunið, verið tiltölulega takmarkaðar í tíma og rúmi. Eldgosið í Heimaey er eina dæmið um miklar náttúruhamfarir sem hafa haft áhrif á mörg þúsund manna bæjarfélag hér á landi.

En hvað ef hið mikla og óvænta gerist, til dæmis á höfuðborgarsvæðinu sem sífellt stækkar? Hvað ef atburður eins og jarðskjálftinn á Haítí fyrir tveimur árum – sem kom flestum á óvart – verður á Íslandi? Erum við undirbúin?

Á vettvangi Rauða krossins hefur verið mikil umræða um viðbúnað við neyð meðal þróaðra þjóða. Japanar, Nýsjálendingar, Ástralar og jafnvel Bandaríkjamenn hafa allir nýlega þurft að þiggja alþjóðlega aðstoð.

Liður í undirbúningi fyrir að hið óhugsandi gerist er að skoða hvernig við getum þegið alþjóðlega aðstoð, ef á henni reynist þörf. Lög og reglur – hér á landi líkt og annars staðar – geta nefnilega reynst Þrándur í Götu aðstoðar á neyðarstund.

Miðað við núgildandi lög er óvíst nema við myndum neita að hleypa leitarhundum inn í landið, krefjast vegabréfsáritunar af sumum erlendum hjálparstarfsmönnum og fara fram á ítarlega og tafsama tollmeðferð fyrir hjálpargögn.

Að tillögu Rauða krossins lýstu íslensk stjórnvöld því yfir á nýafstaðinni Alþjóðaráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Genf að þau hygðust láta fara fram skoðun á því hvaða lög og reglur geta virkað sem hindranir í vegi alþjóðlegrar aðstoðar, ef til neyðarástands kemur.

Í stjórnkerfinu og á vegum Rauða krossins er verið að vinna að málinu. Það er mikilvægt og brýnt. Við þurfum að hafa að leiðarljósi spurninguna: Hvað ef hið óhugsandi gerist – á morgun?




Skoðun

Sjá meira


×