Erlent

Leið kúgunar er blindgata

Þúsundir manna hafa fallið í átökum í Sýrlandi síðustu misseri. Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna segja 400 manns hafa fallið síðastliðnar þrjár vikur.
Þúsundir manna hafa fallið í átökum í Sýrlandi síðustu misseri. Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna segja 400 manns hafa fallið síðastliðnar þrjár vikur. nordicphotoS/afp
Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hvetur Bashar al-Assad Sýrlandsforseta til að hætta að „drepa fólkið sitt“. Í ræðu á ráðstefnu um lýðræði í arabaríkjunum sem haldin var í Beirút í gær sagði hann: „Láttu af ofbeldi og hættu að drepa þína eigin þegna. Leið kúgunar er blindgata.“

Sheik Hamad, emír af Katar, sagði í viðtali við 60 mínútur á CBS í gær að arabaríkin þyrftu að senda eigið herlið inn í Sýrland til að stöðva drápin.

Þúsundir hafa fallið í átökum stjórnvalda í Sýrlandi og mótmælenda undanfarin ár. Átökin hafa magnast síðustu mánuði með hernaðaraðgerðum stjórnvalda gegn mótmælendum.

Yfirvöld í Sýrlandi samþykktu í síðasta mánuði áætlun Arababandalagsins að stöðva herferðina og draga skriðdreka og þungavopn út úr borgum, sleppa pólitískum föngum og hleypa fréttamönnum og starfsmönnum mannréttindasamtaka inn í landið. Um 200 útsendarar Arababandalagsins eru í Sýrlandi til að fylgjast með því að staðið sé við þá samþykkt.

Fréttir herma þó að vera útsendaranna í landinu hafi ekki stöðvað blóðsúthellingarnar. Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna segja 400 manns hafa verið drepna síðastliðnar þrjár vikur og að yfir 5.000 manns hafi verið drepnir síðan í mars í fyrra. - rat




Fleiri fréttir

Sjá meira


×