Erlent

Ungverjar breyti lögunum

José Manuel Barroso
José Manuel Barroso
Stjórnvöld í Ungverjalandi eru reiðubúin að falla frá umdeildum breytingum á stjórnarskrá og löggjöf landsins, komi í ljós að þær brjóti í bága við Evrópurétt. Þetta sagði José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn í fyrradag.

Barroso sagði að framkvæmdastjórnin myndi næstkomandi þriðjudag birta úttekt sína á lagabreytingunum. Komist hún að þeirri niðurstöðu að þær fari í bága við lög ESB, er líklegt að beitt verði refsiaðgerðum. Þær gætu bæði faliðí sér að Ungverjar fengju ekki fjárhagsaðstoð sem þeir þurfa sárlega á að halda og að þeir yrðu útilokaðir frá atkvæðagreiðslum í ráðherraráði ESB.

Ungverjar hafa til þessa látið viðvaranir framkvæmdastjórnar ESB sem vind um eyrun þjóta, en Barroso upplýsti að á fundi á miðvikudag hefðu ungversk stjórnvöld lýst sig reiðubúin til að skoða að breyta lögunum á ný, yrði niðurstaðan sú að breytingarnar brytu í bága við lög Evrópusambandsins.

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að Ungverjaland fari eftir lögum og grundvallarreglum Evrópusambandsins og ég er sannfærður um að við náum því fram,“ sagði Barroso. - óþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×