Erlent

Eldur gaus upp og fólk stóð í ljósum logum

Bíll í tætlum Á vettvangi Mannskæðustu sprengjuárásar síðustu mánaða í Pakistan.
Bíll í tætlum Á vettvangi Mannskæðustu sprengjuárásar síðustu mánaða í Pakistan. Fréttablaðið/AP
Tuttugu og fimm létu lífið þegar sprengja sprakk á markaði í Pakistan, nærri landamærum Afganistan, í gær. Árásinni var beint að herliði sem berst við talibana í Pakistan. Að sögn yfirvalda er árásin sú mannskæðasta í nokkra mánuði.

Að sögn löggæslu á staðnum var líklega um fjarstýrða sprengju að ræða, en skotmarkið var bílar sem herlið í Khyber-héraði nota. Auk þeirra sem létust slösuðust 24. Haft er eftir verslunareigandanum Sharif Gul að mikill eldur hafi gosið upp við sprenginguna og sjá hafi mátt fólk í ljósum logum. „Við höfðum ekkert til að fást við eldinn,“ sagði hann á spítalanum í Peshawar, stærsta bænum í norðvestanverðu landinu, þar sem gert var að sárum hans.

Herinn í Pakistan hefur stutt við myndun hersveita með óbreyttum borgurum í þessum hluta Pakistan, en hlutverk þeirra er að berjast við talibana. Uppreisnarmenn hafa hins vegar staðið fyrir hörðum árásum á þessi herlið síðustu tvö ár.

Mörgum af mannskæðustu árásunum í Pakistan hefur verið beint gegn hermönnum þessara sveita eða fjölskyldum þeirra.

Síðasta stóra árásin var í september síðastliðnum. Þá var 31 drepinn í árás sjálfsmorðsprengjumanns á útför héraðshöfðingja sem var á móti talibönum. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×