Erlent

Að minnsta kosti 72 létu lífið

Synir Abbas Lazim syrgja föður sinn sem lést á spítala eftir sprengjuárásirnar í Bagdad í gær. 
Fréttablaðið/ap
Synir Abbas Lazim syrgja föður sinn sem lést á spítala eftir sprengjuárásirnar í Bagdad í gær. Fréttablaðið/ap
Að minnsta kosti 72 létu lífið og yfir 60 særðust í fjölda sprengjuárása í tveimur hverfum sjía-múslíma í Bagdad í gær. Árásirnar ýttu enn frekar undir ótta heimamanna um auknar aðgerðir uppreisnarmanna eftir að bandarískir hermenn yfirgáfu landið í síðasta mánuði.

Fyrsta sprengjan var fest við mótorhjól og sprakk nálægt strætóstöð þar sem verkamenn safnast saman á daginn í leit að vinnu. Önnur sprengja sprakk nær samstundis í vegkanti skammt frá. Lögreglan fann þriðju sprengjuna í nágrenninu en náði að aftengja hana.

Talsmaður hersins í Bagdad segir að það sé of snemmt að geta sér til um hverjir stóðu að baki árásunum. Sprengingar á þessum svæðum hafa þó verið eitt af einkennismerkjum súnní-múslíma tengda við al-Kaída.

Árásirnar í gær eru þær mannskæðustu síðan 22. desember þegar 69 manns létu lífið í sjía-hverfum borgarinnar. Al-Kaída lýsti þeim árásum á hendur sér.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×