Erlent

Áramótin úti í heimi

Mynd/Pjetur
Nú hefur nýja árið gengið í garð í öllum löndum heims en íbúar þriggja landa fengu að njóta gamla ársins lengst allra.

Allir þeir sem byggja þessa jörð hafa tekið á móti árinu 2012 með tilheyrandi hátíðahöldum. Íbúar á bandarísku-samóaeyjum, ásamt íbúum Midway-eyja og Níu, eru eflaust enn að fagna því nýja árið gekk þar í garð fyrir rúmri klukkustund.

Fjöldi safnaðist saman á Friðartorginu í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, þegar klukkan sló tólf á miðnætti þar í landi til að fylgjast með flugeldasýningu og minnast þeirra sem létust í óeirðunum í landinu á árinu sem leið.

Þúsundir fylgdust með veglegri fimmtán mínútna flugeldasýningu í Lundúnum á miðnætti sem var með heldur óvenjulegu ívafi þetta árið. Tólf þúsund flugeldum var skotið upp en margir þeirra mynduðu ólympíumerkið og var tónlist leikin undir til að magna upplifun gestanna. Viðburðurinn hafði verið í undirbúningi í heilt ár en með herlegheitunum voru sumarólympíuleikarnir hylltir en þeir verða einmitt haldnir í borginni á þessu ári.

Ástralir eru skotglaðir líkt og Íslendingar en gríðarlegur fjöldi safnaðist saman til að berja flugeldasýningu á hafnarbrúnni við Óperuhúsið augum í Sydney. Parísarbúar hópuðust saman við eitt þekktasta kennileiti í heimi, Eiffelturninn og margir Rómarbúar gerðu slíkt hið sama og fögnuðu nýju ári við Colosseum hringleikjahúsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×