Í myndbandinu má sjá hugljúft augnablik úr lífi Carr-fjölskyldunnar. Bræðurnir Harry og Charlie leika sér í hægindastól. Harry ögrar bróður sínum með því að veifa puttanum sínum fyrir framan hann - Charlie litli stenst ekki mátið og bítur í fingurinn.
Faðir bræðranna, Howard Davies-Carr ákvað að setja myndbandið á YouTube svo að skyldmenni þeirra gætu skemmt sér yfir atvikinu. Eftir nokkrar vikur var búið að horfa á myndbandið 200 sinnum. Howard ákvað að hafa myndbandið ögn lengur á síðunni.
„Ég fór á YouTube til að taka myndbandið af síðunni," sagði Howard í viðtalið við ABC fréttastofuna. „Allt í einu var búið að horfa á myndbandið nokkur þúsund sinnum. Hvaða fólk var eiginlega að horfa á þetta?"

Carr-fjölskyldan hefði allt eins getað unnið í happdrætti. Þau hafa þénað rúmlega hálfa milljón dollara á myndbandinu.
„Charlie Bit Me" er talið það fyrsta sinnar tegundar. Á síðustu fimm árum hefur fjöldi myndbanda sprottið fram og náð gríðarlegum vinsældum á veraldarvefnum.
Brot úr myndbandinu hafa birst í auglýsingum víða um heim og það er jafnvel til sérstakt smáforrit sem byggir á myndbandinu. Barnabækur byggðar á bræðrunum eru einnig á leiðinni.
Foreldrar Harry og Charlie hafa þó reynt að halda piltunum í ákveðinni fjarlægð frá myndbandinu. Þannig hafa bræðurnir engan skilning á því hversu vinsælt myndbandið er í raun. Hagnaðurinn sem fengist hefur af myndbandinu hefur farið í sérstakan skólasjóð fyrir piltana.
Hægt er að sjá myndbandið hér fyrir ofan.