Skoðun

Nauðungarsala

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir skrifar
Síðustu átta mánuði voru skráðar 1.459 nauðungarsölubeiðnir á fasteignum hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Fjórar afborganir af einu láni geta verið næg ástæða fyrir banka til að setja heimili á nauðungaruppboð. Við það þurrkast út milljónir sem fjölskylda hefur borgað bankanum samviskusamlega árum saman. Eign fjölskyldunnar verður í besta falli á núlli og jafnvel kemur fjölskyldan stórskuldug út úr hremmingunum ofan á það að missa heimili sitt.

Það er lítið mál fyrir banka að óska eftir nauðungarsölu á fasteign og í rauninni alveg frábær valkostur og áhættan lítil. Þegar banki óskar eftir nauðungarsölu er lítil hætta á að aðrir bjóði í fasteignina. Þess vegna getur bankinn boðið mjög lágt og dæmi eru um að banki leysi til sín eignir allt niður í 20.000 krónur á m² þegar markaðsvirði á íbúðarhúsnæði er í kringum 250.000 krónur á m². Við endursölu getur bankinn bókfært mismuninn á nauðungarkaupverðinu og söluverðinu sem hagnað. Hagnaður bankanna er m.a. að færa starfsmönnunum bónusa og jafnvel eignarhlut.

Fjölskylda sem verður fyrir nauðungarsölu er ekki endilega laus við bankann. Ef eitthvað stendur út af af láninu skuldar fjölskyldan bankanum það enn þá. Bankinn getur því haldið áfram að andskotast í fjölskyldunni, sem er á götunni, út yfir gröf og dauða. Þetta á m.a. við um fjölskyldur sem hafa fengið 110% leiðréttingu fasteignalána og eru beittar nauðungarsölu. Leysi bankinn til sín heimilið á nauðungaruppboði skuldar fjölskyldan bankanum enn þá a.m.k. 10% af veðsetningunni.

Ef banki lendir í fjárhagsvandræðum hleypur ríkið undir bagga. Ef fjölskylda lendir í fjárhagsvandræðum gagnvart þessum sama banka og missir heimili sitt er það hennar einkamál.

Allt þykir þetta réttlátt, sanngjarnt og eðlilegt.




Skoðun

Sjá meira


×