Erlent

Vetrarhörkur og snjókoma valda neyðarástandi í Alaska

Miklar vetrarhörkur og snjókoma hafa leitt til þess að neyðarástandi hefur verið lýst yfir í nokkrum bæjum í Alaska. Verst er ástandið í bæjunum Cordova og Nome.

Um 2.000 manns eru lokaðir inn í Cordova en þar mældist snjókoman þrír metrar af jafnföllnum snjó. Þök á húsum þar hafa gefið sig undan snjóþunganum. Menn úr þjóðvarðliði Alaska hafa verið sendir til bæjarins til að aðstoða bæjarbúa við snjómokstur.

Bærinn Nome er algerlega einangraður og þar skortir eldsneyti. Bandarískur ísbrjótur er að reyna að brjóta rússnesku olíuskipi leið til bæjarins en ferðin sækist seint þar sem þykkur rekís hamlar siglingu beggja skipanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×